Morðóður bankastarfsmaður á Egilsstöðum

Unnur Arna Borgþórsdóttir er 28 ára lögfræðimenntaður bankastarfsmaður á Egilsstöðum þar sem hún er fædd og uppalin. Hún er yngst fjögurra systkina, mikill dýravinur og hefur mörg áhugamál - meðal annars íþróttaiðkun, útilegur og fjallgöngur.
Svo er hún líka með mikið blæti fyrir hræðilegum morðmálum. 
Unnur Arna hefur farið á kostum með frammistöðu sinni í hlaðvarpsþættinum Morðcastið sem hún setti nýlega á laggirnar og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa því Íslendingar virðast greinilega ekki fá nóg af því að hlusta á Unni fjalla um óhugnanlega atburði eins og morð og limlestingar.

Morðmál á léttum nótum

Morðcastið fjallar um að mestu leyti um norræn sakamál, oftar en ekki skelfileg morðmál, en það er ekki skrifað í stein segir Unnur:

„Það er fjallað um íslensk og skandínavísk sakamál á aðeins léttari nótum en vaninn er. Oft eru þau samt alls ekki skandínavísk, bara það sem er hressandi og skemmtilegt og mér þykir áhugavert.“

„Allir elska morð,“ er slagorðið sem var notað fyrir barsvar …
„Allir elska morð,“ er slagorðið sem var notað fyrir barsvar (e. pubquiz) Morðcastsins. Ljósmynd/Aðsend

Kennir systur sinni um áhugann

Spurð hvernig í ósköpunum standi á því að hún þróaði með sér þennan næstum sjúklega áhuga á hrottalegum morðmálum er hún fljót að benda á Bylgju eldri systur sína. „Ég veit það ekki í sjálfu sér en systir mín er líka mjög hugfangin af þessu,“ segir Unnur og hlær. Hún heldur áfram:

„Ég held að það sé smá feluleikur í gangi um þessi mál á Íslandi, það er íslensk sakamál. Þegar ég var í lögfræðinámi þá byrjaði ég að pæla meira í þessu og skoða þetta nánar. Þá urðu íslensku málin svo ótrúlega nálægt manni og svo aðgengileg að þá fattaði ég hvað það er í alvöru mikið af hlutum sem gerast á Íslandi án þess að maður heyri af þeim.“

„Ég er mjög forvitinn persóna svo ég byrjaði að leita að þessu sjálf,“ bætir hún við.

Uppáhaldsmálin eru þau þar sem fórnarlambið lifir af 

Spurð hvert sé hennar uppáhalds mál stendur ekki á svörum.

„Mitt uppáhalds mál er klárlega málið hennar Mary Vincent. Það er ótrúlegt mál og hún er algjör hetja. Það er fáránlegt mál og algjör viðbjóður,“ segir Unnur og lýsir því í stuttu máli fyrir blaðamanni:

„Hún fer á puttanum og fær far hjá manni sem misnotar hana aftur í bíl. Svo heggur hann af henni hendurnar, kastar henni ofan í gljúfur. Hún gefst ekki upp og nær að útvega sér hjálp og lifir af.“

Hún segir að málin sem endi ekki með andláti séu í uppáhaldi hjá henni. „Ég er spenntust fyrir því þegar fólk lifir af og getur sagt söguna frá sinni hlið og þegar málin eru erfið í sönnunarfærslu og lagalega flókin.“

Mary Vincent lifði af hrottafengna árás þar sem hún var …
Mary Vincent lifði af hrottafengna árás þar sem hún var misnotuð kynferðislega af ferðalangi sem hjó einnig af henni hendurnar. Unnur ræðir málið í fyrsta þætti Morðcastsins. Ljósmynd/Aðsend

Hverjir vilja hlusta á sögur af morðum?

Ef samfélagsmiðlar Morðcastsins eru skoðaðir þá má fljótt sjá að það eru helst ungar konur og húsmæður sem lýsa yfir ánægju sinni með hlaðvarp Unnar. Blaðamaður spyr Unni hvort það séu aðallega þessi hópar sem hlusta á Morðcastið.

„Ég held að það sé kannski frekar að það sé fólkið sem sé mest að deila og kommenta en það er allur skalinn af fólki sem hlustar og sendir mér persónuleg skilaboð,“ segir hún skellihlæjandi sem gefur í skyn að spurning blaðamannsins hafi ekki verið gáfuleg.

Barsvar með morðþema

Áhuginn á Morðcastinu hefur verið svo gríðarlegur að Unnur stóð fyrir barsvari (e. Pubquiz) með morðþema á Egilsstöðum í lok júní þar sem mætingin var virkilega góð að sögn Unnar.

„Ég var ótrúlega ánægð með það og það var fjölbreyttur hópur sem mætti,“ segir hún og bætir við hlæjandi: „og jafnt kynjahlutfall.“

Það var fullt hús á barsvari með morðþema sem Unnur …
Það var fullt hús á barsvari með morðþema sem Unnur stóð fyrir. Ljósmynd/Aðsend

Nennti ekki að taka þátt í feluleiknum

Unnur hefur lengi verið mikil aðdáandi hlaðvarpa og hlustað mikið á þætti um sannsöguleg sakamál (e. True crime). En af hverju var ekki nóg að hlusta á erlend hlaðvörp og lesa um íslensk sakamál? Af hverju að byrja með sitt eigið hlaðvarp?

„Mér fannst vanta umfjöllun eins og gengur og gerist erlendis. Það eru hlaðvörp og þættir ótrúlega víða um heiminn sem fjalla um alls konar sakamál en það vantaði íslenskt hlaðvarp,“ segir hún og bætir við:

„Það hefur nánast ekkert verið fjallað um íslensku málin og mig langaði bara að hætta að taka þátt í feluleiknum og leyfa fólki að fatta að ef það vill lesa um íslensk morð eða sakamál þá er ekkert mál að finna það. Þetta er allt saman á netinu.“

„Það er fullt af hræðilegum hlutum sem hafa gerst á Íslandi án þess að maður viti af því af því að það hefur ekki verið fjallað nægilega um þá,“ segir Unnur að lokum.

Morðcastið er aðgengilegt á Spotify, Apple podcasts, Soundcloud og Podbean sem og flestum öðrum veitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert