Forsvarsmenn fyrirtækisins Eldum rétt hyggjast ekki tjá sig frekar um stefnu Eflingar nema fyrir dómstólum að því er mbl.is hefur fengið staðfest.
Efling hefur stefnt fyrirtækinu fyrir hönd fjögurra starfsmanna sem fengnir voru til starfa tímabundið í gegnum starfsmannaleiguna Menn í vinnu.
Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is að Efling telur Eldum rétt bera lagalega ábyrgð á vangoldnum launum mannanna á grundvelli keðjuábyrgðar og krefjast greiðslu rúmlega fjögurra milljóna króna meðal annars vegna launa, miskabóta og lögfræðikostnaðar.
Eldum rétt hefur hins vegar sagt mennina aðeins hafa starfað samanlagt í fjóra daga hjá fyrirtækinu. Þá hafi það orðið kostnaður upp á tvö til þrjú hundruð þúsund ef Eldum rétt myndi greiða full laun fyrir þessa fjóra daga, var haft eftir Kristófer Júlíusi Leifssyni, einum stofnenda Eldum rétt.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur sakað fyrirtækið um að „skýla sér á bak við einhverja lagatæknilega fimleika“.
Þá hafnaði Efling öllum tillögum Eldum rétt á fundi þeirra síðastliðinn föstudag og heldur í kröfu sína sem meðal annars felur í sér 750 þúsund krónur í miskabætur fyrir hvern starfsmann.