Yfir tuttugu þúsund evrur, um 2,9 milljónir króna, hafa safnast í Málfrelsissjóð til varnar konum sem tjá sig um kynbundið ofbeldi. Þar með hefur markmið þeirra sem standa að fjársöfnun í sjóðinn á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund náðst, þrátt fyrir að tólf dagar séu enn eftir af söfnuninni.
Markmið sjóðsins er að „standa straum af málsvarnarkostnaði og mögulegum skaðabótum sem konur kunna að vera dæmdar til að greiða ef þær tjá sig um kynbundið ofbeldi á opinberum vettvangi.“
Þær Helga Þórey Jónsdóttir, Anna Lotta Michaelsen, Elísabet Ýr Atladóttir og Sóley Tómasdóttir settu söfnunina af stað skömmu eftir að Oddný Arnarsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir voru dæmdar til þess að greiða tveimur mönnum miskabætur vegna ummæla sem þær létu falla á netinu í tengslum við hið svokallaða Hlíðamál.
Elísabet Ýr segir í samtali við mbl.is að þessi tiltekna söfnun muni halda áfram til 22. júlí og að sú lágmarksupphæð sem hafi náðst, 20.000 evrur, sé „í raun dropi í hafið af kostnaðinum við öll þessi mál.“
Hvernig framhaldið verði svo á þessu verkefni, varðandi frekari fjársafnanir og annað, verður að koma í ljós, segir Elísabet.
„Við sjáum til með framhaldið en við erum hvergi nærri hættar, og vonum að fólk haldi áfram að styðja Málfrelsissjóð. Það að lágmarkinu hefur verið náð á svo stuttum tíma sýnir að almenningur styður málfrelsi kvenna,“ segir Elísabet Ýr.