Hóta mjög harkalegum verkföllum

Eining-Iðja hótar verkföllum ef ekki fæst eingreiðsla til opinberra starfsmanna …
Eining-Iðja hótar verkföllum ef ekki fæst eingreiðsla til opinberra starfsmanna á Norðurlandi á meðan kjaraviðræðum er frestað.

Eining-Iðja hótar samninganefnd íslenskra sveitarfélaga sögulega víðtækum verkföllum ef ekki verður fallist á eingreiðslu upp á 105.000 krónur á meðan kjaraviðræðum er frestað fram í ágúst.

Ef eingreiðslan kemur ekki og samninganefnd SNS [samninganefnd íslenskra sveitarfélaga] fer ekki að ljá máls á sjálfsögðu jafnræði, sbr. umrædda lífeyrisjöfnun, munu þau sjá verkfallsaðgerðir sem ekki hafa sést á undanförnum árum,“ segir í ályktun frá Einingu-Iðju, stéttarfélagi, sem birt var á vefsvæði þess í dag.

Á fundi trúnaðarmanna Einingar-Iðju fyrir opinbera starfsmenn innan félagsins var samþykkt ályktun um að ef samninganefnd íslenskra sveitarfélaga féllist ekki á að veita félagsmönnum 105.000 króna eingreiðslu komi til harkalegra verkfalla.

Samninganefnd sveitarfélaganna hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og félög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september nk. Samið hefur verið um innágreiðslu upp á kr. 105.000 fyrir 100% vinnu. „Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir SGS hvort slíkt standi okkar félagsmönnum til boða en formaður samninganefndar sveitarfélaganna sagði nei, þar sem búið væri að vísa deilunni til sáttasemjara,“ segir í tilkynningu á vef Einingar-Iðju.

Af þessum sökum hvetur fundurinn „félagsmenn sem vinna hjá sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu til að undirbúa sig fyrir hörð átök í haust sem munu koma niður á þjónustu við þá sem minnst mega sín“. „Þjónusta sveitarfélaganna við almenna borgara mun skerðast og stöðvast að miklu leyti ef til þessa kemur,“ segir jafnframt.

Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur samninganefnd sveitarfélaganna og sveitarstjórnum á svæðinu ef svo alvarlegt ástand skapast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert