Námsmenn erlendis á íslenskri framfærslu

Lánasjóður íslenskra námsmanna mun hætta að miða framfærslulán erlendis við …
Lánasjóður íslenskra námsmanna mun hætta að miða framfærslulán erlendis við framfærslu þar í landi, og nota íslenska þess í stað til grundvallar. mbl.is/Hjörtur

Framfærsluviðmið námsmanna erlendis verða miðuð við Ísland, í stað búseturíkis, verði frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna samþykkt.

Lánasjóðurinn lánar námsmönnum til framfærslu í samræmi við framfærsluviðmið sjóðsins, þ.e. viðmið um hver dæmigerður lifikostnaður námsmanns er. Samkvæmt núverandi kerfi er miðað við framfærslukostnað í ríkinu, eða borginni, þar sem stundað er nám.

Námsmaður á Íslandi, sem býr í eigin húsnæði, fær þannig tæpar 832 þúsund krónur í námslán á önn, en íslenskur námsmaður í Þýskalandi, þar sem framfærslukostnaður er lægri, fær 4.410 evrur, um 623 þúsund krónur.

Fagna endurskoðuninni

Þar sem framfærslukostnaður er víðast hvar lægri erlendis en á Íslandi, hefur það í för með sér að námsmenn erlendis fá lægri námslán en þeir sem stunda nám heima. Í samtali við mbl.is segir Jóhann Gunnar Þórarinsson, formaður Samtaka íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), að samtökin hafi lengi gagnrýnt þann útreikning sem liggi til grundvallar framfærsluviðmiði Íslendinga erlendis.

Meðal þess sem námsmenn erlendis hafa kvartað yfir er að útreikningurinn byggi um of á lifikostnaði heimamanna. Námsmenn, og aðrir útlendingar, sem ekki þekki jafn vel á innviði samfélagsins eigi erfiðara með að lifa ódýrt og finna ódýrt húsnæði, svo dæmi séu tekin.

Fagnar hann því endurskoðun á framfærslu erlendra námsmanna, en bætir við að samtökin hafi ekki fengið tækifæri til að leggjast yfir frumvarpið, sem gefið var út í gær. Því sé of snemmt að taka afstöðu til þess að svo stöddu.

Námsmenn í dýrum borgum fá þó uppbót

Til eru þeir staðir, þótt fáir séu, þar sem framfærslukostnaður er hærri en á Íslandi og eru það einkum stórborgir Vesturlanda. Má þar nefna New York-borg, þar sem framfærsluviðmiðið á önn hefur verið 10.620 dalir, um 1,32 milljónir króna á gengi dagsins en það er tæpri hálfri milljón meira en á Íslandi.

Til að bæta námsmönnum þar upp þennan aukna framfærslukostnað, nú þegar miða á framfærslu erlendis við framfærslu á Íslandi, verður boðið upp á sérstaka viðbótarframfærslu fyrir þá námsmenn og ætlunin því að enginn komi verr út úr nýja kerfinu en því gamla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert