Um „alvarlegar rangfærslur“ að ræða

Heilsustofnunin í Hveragerði.
Heilsustofnunin í Hveragerði. Ljósmynd/Heilsustofnunin

Markaðsstjóri Heilsustofnunarinnar í Hveragerði segir ekki rétt að verið sé að loka rúmum og skerða þjónustu á geðsviði stofnunarinnar. Segir hann þjónustu á geðsviði í samræmi við samning við Sjúkratryggingar Íslands og að svo verði áfram. 

Í viðtali mbl.is í gær við framkvæmdastjóra Geðhjálpar kom fram að auk skertrar þjónustu á geðsviði Landspítalans, til að mynda á deild 33A sem er bráðageðdeild, væri nú einnig verið að loka 20 rúmum á geðendurhæfingardeild Heilsustofnunarinnar.

Þá lýsti framkvæmdarstjóri Geðhjálpar yfir áhyggjum sínum um að deildinni yrði lokað endanlega, sem væri ekki í samræmi við samning Heilsustofnunar við Sjúkratryggingar Íslands. 

Ingi Þór Jónsson, markaðsstjóri Heilsustofnunarinnar, segir engum rúmum hafa verið lokað og að pláss á stofnuninni sem ætluð séu til endurhæfingar á geðsviði séu til staðar og í notkun. 

„Það er í sjálfu sér engin breyting. Það hefur verið sagt að þessum rúmum hafi verið lokað sem eru alvarlegar rangfærslur í raun og veru því það er ekki búið að loka neinu og geðteymið heldur áfram að vinna,“ segir Ingi. 

„Hér hefur í áratugi, útaf sumarleyfum, verið fækkað aðeins í húsi. Það er gert alveg í samræmi við samninginn við sjúkratryggingar, að það sé aðeins dregið saman yfir sumarið eins og annar staðar,“ segir Ingi og bætir við að geðlína stofnunarinnar sé og verði áfram opin.  

Allt fjármagn fer á réttan stað 

Gerður var starfslokasamningur við yfirlækni stofnunarinnar fyrr á árinu, en hann var jafnframt eini starfandi geðlæknir stofnunarinnar.

„Það var haft samband við alla hans skjólstæðinga og við tók nýr læknir og mál hvers og eins bara rædd og leyst. Strax og þetta kemur í ljós, að viðkomandi aðili yrði ekki lengur við störf, þá var farið í þessu vinnu og það gekk bara vel,“ segir Ingi. 

Ekki er starfandi geðlæknir á Heilsustofnuninni sem stendur. Ingi segir það ekki hafa áhrif á þjónustuna, þó að vissulega séu einstaklingar sem leiti í þjónustu einstaka lækna. 

„Í áratugi hefur hér verið veitt geðendurhæfing og starfandi geðteymi,“ segir Ingi og bætir við að samningurinn við Sjúkratryggingar Íslands sé mjög skýr og að Heilsustofnunin fari eftir honum í allri sinni þjónustu. Verið sé að veita þverfaglega endurhæfingarþjónustu en ekki bráðaþjónustu. 

Ingi segir að í þjónustusamningnum við Sjúkratryggingar séu skilgreindar 154 milljónir til geðsviðsins af 875 milljónum. Það sé því ekki rétt að 20% fjármagnsins eigi að fara á sviðið og þá segir hann það alrangt að það fjármagn sem renna eigi til geðlínunnar fari í aðra þjónustu. 

Ingi segist ekki geta áttað sig á því hvaðan þær fullyrðingar komi um að verið sé að loka geðsviðinu. Mergur málsins sé þó sá að aldrei hafi annað staðið til en að þjónustan haldi áfram af fullum krafti í samræmi við samninginn við Sjúkratryggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert