Fjárfestar í samvinnu við tvo fyrrverandi stjórnendur flugfélagsins WOW air vinna að því að stofna nýtt lággjaldaflugfélag á grunni félagsins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en írskur fjárfestingasjóður í eigu Aislinn Whittley-Ryan, dóttur eins af stofnendum lággjaldaflugfélagsins Ryanair, kemur að verkefninu.
Fram kemur í fréttinni að leitað hafi verið til að minnsta kosti tveggja banka hér á landi eftir lánafyrirgreiðslu upp á 31 milljón evra sem nemur tæplega fjórum milljörðum króna. Írski fjárfestingasjóðurinn, Avianta Capital, hefur skuldbundið sig til þess að leggja nýja flugfélaginu, WAB air, til 40 milljónir dollara, rúmlega fimm milljarða króna, í hlutafé.
Til stendur að framlag Avianta Capital tryggi rekstrargrundvöll flugfélagsins til þriggja ára. Fáist fyrirgreiðsla hjá íslenskum banka er ætlunin að nýta það fé sem eigið fé til þess að slá lán hjá svissneskum banka.
Gangi þetta upp verður Avianta Capital eigandi 75% af nýja félaginu á móti 25% hlut félagsins Neo sem er í eigu Arnars Más Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs WOW air, Sveins Inga Steinþórssonar, sem stýrði hagdeild flugfélagsins og sat í framkvæmdastjórn þess, Boga Guðmundssonar, lögmanns hjá Atlantik Legal Services og stjórnarformanns BusTravel, og Þórodds Ara Þóroddssonar, ráðgjafa í flugvélaviðskiptum í Lundúnum, segir í fréttinni.
Til stendur að WAB air hefji rekstur strax í haust og verði með sex farþegaþotur í rekstri fyrsta árið sem fljúgi til fjórtán áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Reiknað er með að fimm hundruð starfsmenn verði ráðnir til starfa á næstu tólf mánuðum.