Lýsing á nýju uppbyggingarsvæði við Stekkjarbakka í jaðri Elliðaárdals mun ekki valda teljandi ljósmengun á svæðinu. Þegar er töluverð lýsing vegna ljósastaura við umferðargötur og göngustíga, auk þess sem birtustig við byggingar verður lækkað um 80% á nóttunni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem unnin er af Kristjáni Kristjánssyni lýsingarhönnuði hjá LISKA, sem er ráðgjafi um ljósvist fyrir hönd Eflu verkfræðistofu.
Segir í tilkynningunni að umhverfi Elliðaárdals teljist nú þegar mikið upplýst vegna lýsingar frá blandaðri byggð í nágrenni við dalinn og óskipulagðri lýsingarhönnun fyrri tíma. Því sé að mati höfundar of seint í rassinn gripið að hafa áhyggjur af myrkurgæðum dalsins.
Myrkurgæði eru mæld í einingunni mpsas (magnitude per square arcsecond, ísl. magn á ferbogasekúndu). Því hærra sem gildið er þeim mun meiri eru myrkurgæði, og ljósmengun því minni. Segir Kristján að við bestu skilyrði, sem miðist einungis við stjörnubirtu, mælist gildið 22 mpsas. Slæm borgarlýsing teljist vera 18 mpsas, en viðunandi úthverfahiminn um 19 mpsas. Í Elliðaárdal reynist þetta gildi 18,4 mpsas. Áhugamönnum um ljósvist til fróðleiks má benda á, þessu ótengt, að á björtustu svæðum Hong Kong mælist þetta gildi 13,2.
Kristján segir stífar kröfur hafa verið gerðar fyrir þróunarreitinn og mögulegt verkefni gróðurhvelfingarinnar Aldin Biodome, gróðurskála Garðyrkjufélagsins og annarra verkefna, sem fyrirhuguð er við Stekkjarbakka, og nefnir í því skyni að unnið hafi verið í samræmi við svokallaðan E2-flokk, sem setji strangari kröfur en E3-flokkurinn sem jafnan sé þó notaður á svæðinu.
Í því skyni verði ljósabúnaði til að mynda beint niður svo að ljósmengun fari ekki yfir 2,5% upp í himinhvolfið.