Einn er í haldi lögreglunnar á Austurlandi eftir hnífstungu í heimahúsi í Neskaupstað í nótt. Atvikið átti sér stað í kringum miðnætti að því er Jónas Wilhelmsson Jensen yfirlögregluþjónn sagði í samtali við mbl.is.
Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann og hefur lögregla ekki nánari upplýsingar um líðan hans. Jónas kveðst þó gera ráð fyrir að hann hafi gengist undir aðgerð í nótt.
Lítið er vitað um málsatvik að svo stöddu og gefur lögregla ekki upp hvort fleiri hafi verið á staðnum. Von er á aðstoð frá tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í dag vegna rannsóknar á vettvangi árásarinnar.
Hinn handtekni gisti í nótt í fangageymslu lögreglunnar á Eskifirði, en ákveðið verður síðar í dag hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Rokkhátíðin Eistnaflug hófst í bænum í gær og staðfestir Jónas að árásin tengist hátíðinni ekki með nokkrum hætti.