Ísland vill svara ákalli um aðgerðir

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, bar upp tillögu Íslands um óháða …
Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, bar upp tillögu Íslands um óháða rannsókn á mannréttindabrotum í Filippseyjum. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

„Ef við getum ekki svarað ítrekuðu ákalli um aðgerðir frá nefndum ráðsins, framkvæmdastjóra mannréttindamála og jafnvel framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna – hvenær getum við þá svarað?“ spurði Haraldur Aspelund, fastafulltrúi Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, í ræðu sinni í dag þegar hann bar upp til atkvæðagreiðslu tillögu Íslands þess efnis að mannréttindabrot í Filippseyjum verði rannsökuð.

„Við ræðum reglulega í ráðinu um þörf á því að koma í veg fyrir og bregðast við [mannréttinda]brotum. En allt of oft verða orð okkar ekki að aðgerðum,“ sagði hann og benti á að gefnar hefðu verið út þrjátíu og þrjár yfirlýsingar frá ráðgjöfum ráðsins er varða Filippseyjar.

„Nýlega kölluðu ellefu sérfræðingar ráðsins sameiginlega eftir óháðri rannsókn á mannréttindabrotum í Filippseyjum. Bentu þeir á neikvæða þróun mála í landinu, jafnframt árásir á fólk og á stofnanir sem vinna að mannréttindum.“

Haraldur benti einnig á að framkvæmdastjóri mannréttindamála hefði lýst gríðarlegri fjölgun aftaka án dóms og laga.

Sækja ekki í átök

Ísland hefur hlotið talsverða gagnrýni Filippseyskra stjórnvalda vegna tillögunnar og hefur meðal annars Teodoro Locsin, utanríkisráðherra Filippseyja, fullyrt að allir sem hafa unnið að brautargengi tillögunar fái greiðslur frá eiturlyfjabarónum.

 „Við leggjum ekki fram þessa tillögu í leit að átökum. Það er aldrei aðferð Íslands. Við höfum látið reyna á uppbyggilegar viðræður í meira en tvö ár,“ sagði Haraldur í ræðu sinni. Benti hann á að sendinefnd Íslands hafi sinnt viðræðum við sendinefnd Filippseyja frá árinu 2017 og á sama tíma lagt fram þrjár ályktanir um ástandið í landinu þar sem lýst er miklum áhyggjum af stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert