Malbiksfúskarar virðast á leið úr landi

Vörubílar mannanna í Þorlákshöfn í morgun.
Vörubílar mannanna í Þorlákshöfn í morgun. Ljósmynd/Hafþór Rúnar Sigurðsson

Erlendur malbikunarflokkur, sem verið hefur á landinu undanfarið og boðið fram þjónustu sína gegn gjaldi, virðist á leið úr landi. Ökutæki malbikunarmannanna standa nú á athafnasvæði skipafélagsins Smyril Line í Þorlákshöfn, þaðan sem flutningaskipið Mykines heldur á morgun af stað til meginlands Evrópu.

Lögregla hefur varað við mönnunum, þar sem þeir virðast hafa stundað það að reyna að svíkja fé út úr fólki með loforði um malbikun á innkeyrslum og bílaplönum, fyrst á Suðurlandi og síðar á Vesturlandi.

Fjallað var um athafnir mannanna á vef Skessuhorns í gær en þar sögðu hjónin Trausti Eiríksson og Ása Ólafsdóttir sögu sína af viðskiptum við þá. Mennirnir komu að bæ þeirra norðan Borgarness og malbikuðu heimreiðina að sveitabænum að hjónunum óspurðum og kröfðust þriggja milljóna króna greiðslu fyrir.

„Ef það yrði ekki greitt samdægurs hækkaði reikningurinn í sex milljónir!“ sagði Trausti við Skessuhorn, en hann greiddi vinnuflokknum ekki krónu og sagðist ætla að kæra málið til lögreglu, en afleggjarinn sem um ræðir er á forræði Vegagerðarinnar og er afar ósléttur eftir vinnu malbikunarflokksins.

Malbiksgengið hefur verið á landinu undanfarnar vikur og boðið fram …
Malbiksgengið hefur verið á landinu undanfarnar vikur og boðið fram þjónustu sína gegn gjaldi, ekki alltaf í fullri sátt við viðskiptavini sína. Ljósmynd/Hafþór Rúnar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka