„Þetta er frægt svindl í Evrópu“

Hér má sjá tæki breska hópsins í Þorlákshöfn í morgun, …
Hér má sjá tæki breska hópsins í Þorlákshöfn í morgun, en þau verða flutt til Hollands með flutningaskipinu Mykinesi á morgun. Ljósmynd/Hafþór Rúnar Sigurðsson

„Þeir telja sig vera í lögmætum erindagjörðum og eigi heimildir til þess að vera hér á landi og stunda sín viðskipti í skjóli EES-samnings. Það eru þær skýringar sem þeir hafa fært fram,“ segir Jón Haukur Hauksson, staðgengill lögreglustjóra hjá lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við mbl.is, spurður út það í hvaða skýringar erlendur malbikunarhópur sem verið hefur að störfum hér á landi undanfarnar vikur hafi gefið á starfsemi sinni.

Vegagerðin hefur að sögn Jóns Hauks gert athugasemdir við að malbik eða einhverskonar efni hafi verið lagt á veg sem er á forræði stofnunarinnar og það mál er til meðferðar hjá lögreglunni á Vesturlandi.

Lögregluskýrsla var tekin af þeim manni sem kynnti sig sem fyrirsvarsmann malbikunarhópsins í gær, en þeir segjast vera frá breska fyrirtækinu Tarmacadams, sem skráð er í borginni Darlington í Englandi.

Á leið úr landi

Þá hefur lögreglan á Suðurlandi fjögur mál til skoðunar, sem snerta þennan sama hóp manna. Hópurinn virðist nú á leið úr landi eftir að fjallað var um störf þeirra í fjölmiðlum í gær, fyrst á vef Skessuhorns og svo einnig í kvöldfréttum RÚV.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa mennirnir bókað far fyrir bíla sína með flutningaskipinu Mykinesi frá Þorlákshöfn á morgun, en skipið siglir alla föstudaga frá Þorlákshöfn og til Rotterdam í Hollandi.

„Við höfðum afskipti af þessum mönnum 4. og 5. júlí og eftir það fara þeir þarna á Vesturlandið og svo hef ég einhverjar spurnir af því að þeir hafi verið að bjóða þjónustu sína í Reykjavík í morgun, með svipuðum hætti,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Íbúar í Langholtshverfi í Reykjavik hafa í dag rætt sín á milli um það á Facebook að enskumælandi menn hafi gengið á milli húsa og boðið fram þjónustu sína við malbikun eða hellulagningu. Ekki liggur fyrir hvort um sama hóp manna sér að ræða.

Oddur segir ekkert stöðva mennina í að fara úr landi, kjósi þeir að gera það. Ekki liggi einu sinni fyrir um hvort klárt lögreglumál sé að ræða.

„Þó að þetta séu ekki heiðarlegustu viðskiptin þá er ekki auðvelt að segja að þetta séu klár brot, fjársvikabrot eða eitthvað svoleiðis,“ segir Oddur og bætir við að þegar að fólk semji um þjónustu sín á milli geti komið upp ósætti, verkkaupi geti talið sig fá ófullnægjandi þjónustu, en það sé ekki endilega lögreglumál.

Flúðu ágenga Hvolsvallarlöggu

Fjölnir Sæmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli, segir í samtali við mbl.is að hann hafi rætt margoft við þessa menn, svo oft að þeir virðist á endanum hafa fært sig á Vesturlandið, orðnir þreyttir á Hvolsvallarlöggunni sem var ítrekað að angra þá. Hann segist hafa tilkynnt af starfsemi þeirra til skattayfirvalda.

„Það er í skattalögunum að þú megir vera með tvær milljónir í tekjur af alls konar sölu án þess að með virðisaukaskattsnúmer, þeir virðast hafa komist að þeirri reglu og segjast svo aldrei vera búnir að vinna fyrir tveimur milljónum. Ég sagðist vilja fá að hver kostnaðurinn þeirra væri á móti, þeir hafa ekki viljað gefa það upp,“ segir Fjölnir.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvar þeir kaupa efnið sem þeir nota við vinnu sína, en Fjölnir segir að lögreglan á Suðurlandi sé kannski komin á slóðina með það.

„Þetta er frægt svindl í Evrópu. Þetta er bara það sama og með Írana í fyrra, sem komu um landið og voru að þrífa,“ segir Fjölnir, en lögreglan varaði í fyrra við írskum mönnum sem voru á ferðinni um landið og buðust til þess að smúla innkeyrslur, glugga og þök gegn gjaldi, sem reyndist síðan oftast hærra en það sem samið var um í upphafi.

„En þetta er frægt svindl, þú getur bara fundið þetta á YouTube, svindl með afgangsmalbik. Þeir herja bara á einstaklinga og vilja helst að þú millifærir bara á staðnum í heimabanka. Þetta komst upp þegar það fór einn í bankann að millifæra, þá neitaði Arion banki að millifæra samkvæmt einhverjum reikningi,“ segir Fjölnir.

En hvernig hefur þjónustan verið sem þeir eru að veita?

„Þetta er náttúrlega ekki vel gert sko,“ segir Fjölnir og segir mennina hafa verið að nota einhverskonar granítefni við malbikunina. „Þar sem ég sá þetta fyrst voru komin hjólför í þetta strax.“

Fjölnir segir að á dögunum hafi einn viðskiptavinur mannanna haft samband við lögreglu og beðið Fjölni um að vera viðstaddan er mennirnir ætluðu að koma og innheimta greiðslu fyrir verk sitt. Er þeir hafi séð lögreglubílinn á staðnum hafi þeir þó bara látið sig hverfa.

Oddur yfirlögregluþjónn segir að lögreglan bendi fólki á að öll svona starfsemi og gylliboð gefi tilefni til þess að vera skoðuð og að fólk eigi að passa að láta ekki plata sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka