Umhverfisáhrif dýpkunar Landeyjahafnar metin

Sandi er dælt úr höfninni og siglt með hann út …
Sandi er dælt úr höfninni og siglt með hann út fyrir. Áform eru um nýjan og stærri efnislosunarstað. mbl.is/Hallur Már Hallsson

Fyrirhuguð viðhaldsdýpkun Landeyjahafnar felur í sér nýjan og stærri efnislosunarstað. Hann er um 240 hektarar að stærð og tekur við um tíu milljónum rúmmetra. Losunarsvæðið er í um þriggja kílómetra fjarlægð frá höfninni og er á um 30 metra dýpi.

Svæðið einkennist af sendnum botni þar sem rót vegna öldugangs er mikið. Dýpi á svæðinu er mjög breytilegt. Búist er við að losunarstaðurinn nýtist í 20-30 ár.

Gert er ráð fyrir 300-500 þúsund rúmmetra dýpkun á ári þar til ný ferja hefur siglingar. Með nýrri ferju er gert ráð fyrir að árleg viðhaldsdýpkun verði um 200-300 þúsund rúmmetrar á ári. Í skýrslunni segir að dýpkun fari fram með sanddæluskipi frá mars fram í nóvember ár hvert. „Tímasetningar miðast alltaf við að hægt sé að opna höfnina sem fyrst og halda henni opinni sem lengst,“ segir í skýrslunni.

Niðurstaða í árslok

Vegagerðin hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum viðhaldsdýpkunar í Landeyjahöfn og efnislosunar í sjó. Tillagan er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Frestur til athugasemda er til 29. júlí 2019. Samkvæmt tímaáætlun um matsvinnuna er stefnt að því að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir í lok þessa árs.

Fram kemur í inngangi tillögunnar, sem VSÓ ráðgjöf vann, og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag, að í matsskýrslu fyrir Landeyjahöfn frá 2008 hafi heildarmagn viðhaldsdýpkunar verið áætlað um 30 þúsund rúmmetrar á ári. Reiknað var með því að eftir aftakaveður gæti þurft að fjarlægja um 80 þúsund rúmmetra úr innsiglingarrennunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert