Aðeins hafa um 3.200 laxar veiðst það sem af er laxveiðitímabilinu en 45.000 veiddust allt síðasta sumar.
Þótt lítillega hafi glaðnað yfir undanfarna daga, samkvæmt samantekt Landssambands veiðifélaga, er veiðin í flestum ám landsins, sérstaklega vestanlands, langt undir því sem venjulegt er á þessum tíma.
Sumarið er ekki búið og binda veiðimenn vonir við smálaxagöngur næstu daga, að því er fram kemur í Morgublaðinu í dag.
„Það eru komnar ákveðnar vísbendingar um að ekki séu líkur á stórveislu framundan. Það verða engin veiðimet slegin í sumar,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis á Hafrannsóknastofnun. Hann segir að mælingar hafi lengi sýnt að árgangur laxanna sem áttu að bera uppi veiðina í sumar sé lítill.