Baldur Arnarson
Óvissa er uppi um áhrif nýs ákvæðis í póstlögum á samkeppni í póstþjónustu. Gæti túlkun þess haft mikil áhrif á samkeppnisumhverfi póstþjónustunnar til frambúðar hér á landi.
Ný póstlög taka gildi um næstu áramót og þá verður einkaréttur Íslandspósts á bréfasendingum undir 50 grömmum afnuminn. Umrætt ákvæði snýr að gjaldskrá fyrir alþjónustu og að hún skuli vera sú sama um allt land, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
Í nýju lögunum er alþjónusta skilgreind sem sú lágmarksþjónusta sem notendum póstþjónustu skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli. Stjórnvöld feli alþjónustuveitanda að sinna henni, sem verður þá Íslandspóstur en vinna við gerð nýs þjónustusamnings stendur yfir. Mun ákvæðið um sama verð ná til stórs hluta póstsendinga, jafnt innan lands sem milli landa, eða fyrir bréf allt að 2 kg, pakka allt að 10 kg innanlands og 20 kg milli landa. Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir þetta ákvæði hafa komið öllum á óvart og óljóst hver áhrifin verði.