Sektaðir geta sloppið við íþróttabann

Eftirlit með steranotkun hefur reynst erfitt.
Eftirlit með steranotkun hefur reynst erfitt. mbl.is/Árni Torfason

Sá galli er á fyrirkomulagi eftirlits með ólöglegum lyfjum að Lyfjaeftirlit Íslands, sem annast eftirlit með lyfjanotkun íþróttamanna, fær ekki í öllum tilvikum upplýsingar um íþróttamenn sem brjóta gegn lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum frá árinu 2018, þ.e.a.s. þegar viðurlögin eru sekt og þegar nöfn eru dulin í dómum.

Þetta segir Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands, en ýmis brot samkvæmt lögunum eru einnig brot samkvæmt alþjóðalyfjareglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA), þar sem kveðið er á um það hvenær banna skuli íþróttamenn frá íþróttum vegna misnotkunar.

Birgir segir að þetta geti leitt til þess að íþróttamaður hér á landi sem t.d. flytji inn eða framleiði stera eða ólögleg efni, fái ekki bann í sinni íþrótt þó hann fái viðurlög samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum. „Það er grundvallaratriði að einstaklingar sem taka þátt í svona starfsemi séu útilokaðir frá íþróttum,“ segir hann.

„Það er ákveðið gat í starfseminni þegar einhver sem t.d. kaupir stera á netinu, flytur þá inn, selur þá eða notar sjálfur getur sloppið við bann, eða óhlutgengi eins og það heitir, meðan sá sem fellur á lyfjaprófi vegna neysluskammts fer í fjögurra ára bann. Það er ekki jafnræði þarna,“ segir Birgir í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert