Tækifæri til að „leiðrétta kúrsinn“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tekist hefur verið á innan Sjálfstæðisflokksins um menn og málefni alla tíð, rétt eins og öðrum flokkum. Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, á Facebook-síðu sinni í dag vegna deilna innan flokksins um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Glíma sé innan Sjálfstæðisflokksins í dag og fyrir hana segist Elliði sem sjálfstæðismaður ekki skammast sín. Hins vegar þurfi átök alls ekki að vera ógnvekjandi. „Í þeim geta falist tækifæri til að herða róðurinn og leiðrétta kúrsinn þar sem þörf er.“

Elliði hefur áður tjáð sig um deiluna um þriðja orkupakkann, sem til stendur að samþykkja á Alþingi í haust vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, þar sem hann hefur lýst áhyggjum vegna eðlis samningsins sem feli í sér aðlögun að Evrópusambandinu.

Þá hefur Elliði velt því upp hvort ekki sé ástæða fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins að vera hugsi yfir því að mesti stuðningur við þriðja orkupakkann komi úr röðum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata samkvæmt skoðanakönnunum. „Er það ekki vísbending um að maður hafi á röngu að standa þegar maður er sammála þessum flokkum?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka