„Þetta er slæm staða,“ segir Ólöf María Samúelsdóttir kúabóndi á Hvammi á Barðaströndinni um þá stöðu að enginn dýralæknir er starfandi í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum. Eini dýralæknirinn á svæðinu, Sigríður Inga Sigurjónsdóttir sem er á Ísafirði, sagði upp samningi sínum við Matvælastofnun í mars. Frá 1. júlí hefur enginn verið starfandi á svæðinu.
Ólöf María segir að þetta verði að leysa sem fyrst. Þrátt fyrir að þau séu vön að bjargað sér í mörgum tilfellum sé ekki ásættanlegt að geta ekki leitað til dýralæknis á svæðinu. Hún bendir á að á veturna séu samgöngur milli sunnanverðra Vestfjarða og Ísafjarðar erfiðar á veturna og gjarnan ófært marga daga. Talsvert langt er milli Ísafjarðar og Hvamms eða um tæplega 500 km leið að fara. Á Hvammi eru tæplega 40 mjólkandi kýr og einn mjaltaþjónn. Nýverið var þeim fækkað vegna kvótaleysis.
„Þetta er rosalegt að vera á vakt allan sólarhringinn allt árið, líka að hafa enga afleysingu. Það er kannski hægt í stuttan tíma í senn,“ segir Ólöf María. Hún hefur þurft að hringja í Sigríði Ingu dýralækni um miðja nætur og telur sig örugglega ekki vera þá einu sem hefur þurft að gera það. „Maður gerir það ekki nema brýna nauðsyn beri til,“ segir hún. Í einu slíku tilfelli þurfti hún að gera bráðakeisara á kú um miðja nótt en slík aðgerð tekur að minnsta kosti nokkrar klukkustundir. Í ofan á lag tekur tíma að koma sér til og frá bænum.
Landsvæðið sem dýralæknir á Vestfjörðum er með á sinni könnu er stórt og að mati Ólafar Maríu er það of stórt. Dýralæknar eru starfandi í Búðardal og í Stykkishólmi. Þeir hafa verið kallaðir til á Hvamm þegar Sigríður hefur ekki getað komið en það tekur tíma fyrir þessa dýralækna að komast á staðinn. „Það væri auðvitað draumur að vera með dýralækni hér á sunnaverðum Vestfjörðum,“ segir hún og bætir við „það er gott að vera hér“.
Ólöf María veltir því einnig fyrir sér hver dýravelferðin sé í raun og veru þegar enginn dýralæknir er á svæðinu. Hún bendir á að bændur hafa ekki leyfi til að eiga t.d. deyfilyf sem þeir gætu þurft að nota til að bjarga sér.
Árni Brynjólfsson kúabóndi á Vöðlum í Önundarfirði, tekur í sama streng og Ólöf María. Hann bendir á að bændur og dýraeigendur þurfi að uppfylla ákveðnar skyldur. „Ég trúi því að reglurnar eigi að virka á báða bóga. Á hinn veginn líka,“ segir hann og vísar til reglugerðar nr. 846/2011.
Hún kveður á um að ríkið styðji við dýralækna til að búa og starfa á þessum tilteknum svæðum á landinu. Reglugerðinni er ætlað að „tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landsvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna eru af skornum skammti“ eins og segir í reglugerðinni.
Spurður hvaða hann hyggist gera ef sú staða kemur upp að hann þurfi á dýralækni að halda segist hann ekki hafa hugsað það til enda. „Kannski er það kæruleysi að vera ekki búinn að ákveða fyrirfram hvaða leið ég fer. Ég hef verið upptekinn af öðru,“ segir hann.
Hann furðar sig á þjónustusamningi Mast og dýralækna, sérstaklega þessari stöðugu vakt sem dýralæknirinn þarf að vera á. „Maður getur sett sig í þessu spor. Það er ekki gott að geta ekki verið í skjóli. Það sækist svo sem enginn í það,“ segir hann.
Hann er vongóður um að þetta leysist. „Allavega að það verði fundin leið sem okkur er ætluð hvort sem það er til bráðabirgða í einhvern tíma,“ segir Árni. Hann býr á Vöðlum sem fyrr segir og er með tæplega 70 mjólkandi kýr og einn mjaltaþjón.
Þau svör fengust frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að unnið væri að málinu í samvinnu við Matvælastofnun og Dýralæknafélag Íslands. Fundur var í ráðuneytinu 3. júlí síðastliðinn með Dýralæknafélaginu. Ekki fengust frekari upplýsingar um hvort þjónustusamningurinn verði endurskoðaður í heild sinni. Núgildandi samningur rennur út á 9 stöðum á landinu 1. nóvember næstkomandi.