Bolvíkingar hafa upprætt með öllu kerfilinn sem hafði náð fótfestu í bænum í kjölfar umhverfisátaks á vegum íbúa bæjarins.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segir íbúa bæjarins hafa unnið hörðum höndum að átakinu sem á upptök sín á Facebook-síðunni Kerfilinn burt úr Bolungarvík.
Bolvíkingar leituðu aðstoðar tveggja grísa við verkið, sem notið hafa mikilla vinsælda meðal bæjarbúa. Gylturnar bera nöfnin Gná og Glóð og þær eru, að sögn bæjarstjóra, miklar stjörnur í bænum.
„Fólkið í bænum er búið að vera ótrúlega duglegt og þessi hópur, íbúarnir, sveitarfélagið og Gná og Glóð, er loksins búinn að klára síðasta kerfilinn,“ segir Jón Páll.
Nánar má lesa um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem út kom í dag.