Síðustu þrjá mánuði hafa verið greiddir um fimm milljarðar króna í atvinnuleysisbætur. Með sama áframhaldi verða greiddir rúmir 15 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá apríl til áramóta og um 19 milljarðar á árinu öllu.
Margt getur breytt þeirri tölu til lækkunar eða hækkunar á árinu. Til að setja 19 milljarða í samhengi samsvarar sú fjárhæð um 42% af kostnaði við uppbyggingu nýs meðferðarkjarna við Landspítalann.
Samkvæmt júnískýrslu Vinnumálastofnunar voru þá rúmlega 6.700 manns á atvinnuleysisskrá. Til samanburðar bendir vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar til að um 10 þúsund hafi verið án vinnu í maí.
Mikil umskipti urðu á íslenskum vinnumarkaði í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins WOW air. Um 1.100 misstu vinnuna en haft var eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, að aldrei hefðu jafnmargir misst vinnuna á Íslandi í einu. Hún áætlaði aðspurð í gær að miðað við efnahagshorfur yrðu bótagreiðslur hærri á síðari hluta ársins.
Samdrátturinn á vinnumarkaði birtist meðal annars í því að starfsfólki starfsmannaleiga fækkar úr 1.552 í júní í fyrrasumar í 913 í júní í ár, eða um 41% milli ára, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.