Diamond Beach í stað Breiðamerkursands

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, eða Diamond Beach eftir því hvernig á …
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, eða Diamond Beach eftir því hvernig á það er litið. mbl.is/RAX

Örnefnanefnd hefur sent sveitarstjórnum á Íslandi bréf þar sem mælst er til þess að leitað verði leiða til að bregðast við því að ensk nöfn á íslenskum stöðum festi sig um of í sessi. 

Tilefni skrifanna er pistill í Speglinum á Rás 1 frá í ágúst í fyrra þar sem fjallað er um ensk nöfn yfir staði á Íslandi. Var þar meðal annars bent á að Breiðamerkursand er ekki lengur að finna á kortaveitunni Google Maps. Þess í stað ber sandurinn enska heitið Diamond Beach (Demantsströnd) sem varla ætti að hringja nokkrum bjöllum hjá Íslendingum.

Fleiri dæmi eru nefnd um íslenskar náttúruperlur sem hafi fengið erlend heiti, svo sem Black Sand Beach í stað Reynisfjöru og Echo Rocks í stað Hljóðakletta. Þessi heiti hafa þó ekki rutt íslensku nöfnunum af Google Maps, og síðarnefndu þýðinguna er raunar ekki að finna þar.

Lítil hjálp í Google.
Lítil hjálp í Google. Skjáskot/Google Maps

Í bréfi örnefnanefndar segir að eðlilegt megi þykja að erlendar þýðingar á örnefnum séu notaðar til að miðla íslenskum menningararfi til útlendinga. Hins vegar verði að gæta þess að erlendu nöfnin verði ekki fyrirferðarmeiri en hin íslensku, svo sem á skiltum og vegvísum.

Nokkur dæmi eru fyrir um íslenska staði sem hafa fengið erlend heiti, en þau eru jafnan beinþýdd úr íslenska heitinu og ættu því ekki að valda landanum miklum heilabrotum. Má þar nefna Bláa lónið (Blue Lagoon) og Gullna hringinn (Golden Circle).

Örnefnanefnd segir eðlilegt að íbúar í nærumhverfi hafi frumkvæði að slíkri nafngjöf á sama hátt og gert er ráð fyrir í lögum þegar nefna þarf ný náttúrufyrirbæri á íslensku. Nafnatillögur skuli svo sendar örnefnanefnd til umsagnar og því næst ráðherra til staðfestingar.
Þetta gekk betur.
Þetta gekk betur. Skjáskot/Google Maps
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert