Glaður eftir tvöfalt Laugavegshlaup

Þorbergur hættir ekki að hlaupa.
Þorbergur hættir ekki að hlaupa. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er þreyttur og illa sofinn,“ segir ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson, í samtali við mbl.is, eftir að hafa unnið Laugavegshlaupið þriðja árið í röð og það þrátt fyrir að hafa tekið 55 kílómetra „upphitun“ í nótt.

Þrátt fyrir svefnleysi og þreytu þá var vél- og orkutæknifræðingurinn Þorbergur þó auðheyranlega glaður með árangurinn þegar blaðamaður náði tali af honum um það bil klukkustund eftir að hann kom í mark.

Er í „ágætis standi“

Þorbergur og Elísabet Margeirsdóttir hlupu Laugaveginn fram og til baka í nótt og dag. Þau byrjuðu á að hlaupa öfuga hlaupaleið klukkan eitt í nótt og voru komin að rásmarkinu tæpri klukkustund áður en Laugavegshlaupið hófst formlega klukkan níu í morgun. Var það liður í undirbúningi fyrir Ultra Trail du Mont Blanc-hlaupið í haust. 

„Það var enginn ferskleiki til staðar [eftir hlaupið í nótt] en það var allt í lagi með okkur,“ segir Þorbergur spurður í hvernig ástandi hann hafi verið fyrir keppnina í morgun eftir „upphitunina“ í nótt. „Ég er í ágætis standi og þetta liggur vel fyrir mér. Ég er að æfa fyrir 170 km hlaup og þetta var svona undirbúningur fyrir það,“ bætir hann við.  

Þorbergur kom í mark eftir 4 klukkustundir 32 mínútur og …
Þorbergur kom í mark eftir 4 klukkustundir 32 mínútur og 15 sekúndur í dag. Ljósmynd/Aðsend

Einblínir á „ofurhlaup“

Hann á erfitt með að svara því hvort hann sé í besta formi lífs síns en segir að hann hafi þó líklega aldrei verið betur undirbúinn fyrir „ofurhlaup“ eða hlaup sem eru yfir 120 kílómetra.

„Ég er búinn að vera einblína meira á þau og ég tók 170 km langt hlaup í fyrra og svo tók ég 115 km langt hlaup í vor þannig ég er búinn að gera meira af þessu,“ segir hann og heldur áfram: „Þetta er allt annað en að hlaupa 80 eða 100 km hlaup því maður þarf að borða öðruvísi og eftir því sem hlaupið er lengra og krefjandi þá reynir meira á hausinn.“

Ekki hugsa um að keppa

En hver er lykillinn að því að ná árangri í svona löngu hlaupi?

„Maður þarf að vera einbeittur á sjálfan sig, ekki hugsa um aðra og ekki hugsa um að keppa fyrr en síðasta þriðjunginn á hlaupinu. Maður vill oft fara að keppa strax og þá skemmir maður fyrir sér. Þetta er mjög erfitt fyrir hausinn og þú munt lenda í bugunum á leiðinni,“ útskýrir Þorbergur áður en hann lauk viðtalinu til að taka á móti kærustunni sinni sem var þá einmitt að koma í mark.

Þorbergur var hress og kátur eftir hlaupið.
Þorbergur var hress og kátur eftir hlaupið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert