Mikilvægt er að stjórnvöld vinni að því með hótelum og gistiheimilum að bæta rekstrarskilyrði þeirra á kostnað svartrar atvinnustarfsemi. Það komi bæði hótelum og ríkissjóði til góða. Þetta segir Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG). Áfangi náðist í vor þegar Alþingi samþykkti auknar heimildir til sýslumanna til að sporna við leyfislausri starfsemi.
Rekstrarhagnaður hótela á landsbyggðinni í fyrra var aðeins 1,4%, en hlutfallið var 10,2% í Reykjavík. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem KPMG vann fyrir Ferðamálastofu um afkomu hótela á Íslandi í fyrra. Kristófer segist þakklátur Ferðamálastofu fyrir að halda úti könnuninni, en Ferðamálastofa tók það að sér fyrir tveimur árum eftir að verkið hafði upphaflega verið í höndum hótela. Upplýsingarnar verða verðmætari þegar þær eru farnar að spanna nokkur ár og sýna okkur þróunina.
Afkoma hótela í höfuðborginni er óbreytt frá árinu 2017, en á landsbyggðinni dregst hún saman úr 3,3% árið áður. Kristófer bendir á að árið 2018 hafi sennilega verið eitt besta ár í ferðaþjónustu frá upphafi og með þeim áföllum sem dunið hafi á í vor, hruni Wow Air og vandræðum Boeing Max-vélanna og tilheyrandi fækkun ferðamanna, sé tilefni til að hafa miklar áhyggjur af afkomu þess árs.
Spurður hvað skýri muninn á Reykjavík og landsbyggð, og versnandi stöðu þeirra síðarnefndu, segir Kristófer að svo virðist sem bakslag hafi orðið í þeirri vinnu ferðaþjónustunnar og stjórnvalda að reyna að koma ferðamönnum, sem hingað koma, út á land og vinna gegn árstíðarsveiflum í komum ferðamanna, en sú vinna hefur staðið um alllangt skeið.
„Það var von okkar í kjölfar samþjöppunar í fiskvinnslu og fækkun starfa þar að ferðaþjónustan gæti tekið í meira mæli við nýjum störfum á landsbyggðinni. Það er því miður ekki að rætast,“ segir hann.
Í skýrslunni kemur fram að aukinn rekstrarkostnaður hótela á landsbyggðinni umfram Reykjavík skýrist að miklu leyti af hærri launakostnaði, sem hlutfall af tekjum. Það hlutfall er 36,3% í Reykjavík en 44,8% á landsbyggðinni, og má ætla að stærðarhagkvæmni stærri hótela í borginni skýri það að einhverju leyti.
Aðspurður útilokar Kristófer ekki að einhverjar hagræðingaraðgerðir, svo sem sameiningar hótela, geti verið svar við versnandi afkomu, líkt og sést hefur á öðrum sviðum ferðaþjónustu. Rútufyrirtækin Allrahanda og Reykjavík Sightseeing Invest óskuðu í vikunni eftir leyfi frá Samkeppniseftirlitinu til sameiningar, en þær viðræður hafa staðið síðan í vor.
Kristófer segir margar skattahækkunaratlögur hafa verið gerðar að hótelgeiranum undanfarin ár og þakkar fyrir að þær hafi ekki allar gengið eftir. Nefnir í því skyni áform um hækkun virðisaukaskattar á gistingu úr 11% í 24% sem fallið var frá.
Þó hafi sérstakur gistináttaskattur, sem leggst á hverja selda nótt á hótelum, verið hækkaður úr 100 krónum í 300 krónur árið 2017. Þessi skattur leggst ekki á íbúðir sem leigðar eru á Airbnb, eða sumarhús, gistingu í húsbílum eða skipum og vitanlega ekki á svarta gistiþjónustu heldur, en Kristófer bendir á að lögleg hótelstarfsemi eigi í mikilli samkeppni við slíka starfsemi. Segir hann að gistináttaskattur slagi hjá mörgum fyrirtækjum upp í tryggingagjald. Lækkun tryggingargjalds hafi verið mikið í umræðunni en minna sé talað um gistináttaskattinn.
„Besti bisness sem stjórnvöld geta farið í er að hjálpa okkur að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi, bæta rekstrarskilyrði löglega rekinna hótela og auka þannig tekjur ríkisins af henni,“ segir hann. Ekkert skili sér jú í ríkissjóð af svartri atvinnustarfsemi.
Eigi að fá ferðamenn í auknum mæli til að sækja út á land þurfi umtalsverða innviðauppbyggingu, bættar vegasamgöngur og aukið fjármagn til flugvalla á landsbyggðinni. Þá þurfi að horfa á landið í heild sinni. „Þetta eru dýrar framkvæmdir en mikilvægar. Það má líkja þeim við hafnarframkvæmdir síns tíma.“
Þá nefnir hann fasteignagjöld sérstaklega, sem hafi hækkað upp úr öllu valdi samhliða hækkun fasteignamats. Fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði eru í lögbundnu hámarki, 1,65%, í flestum sveitarfélögum, þar á meðal í Reykjavík, og hafa ekki lækkað að neinu ráði til að mæta hækkun fasteignaverðs.
Á sama tíma keppi hótel við íbúðir í útleigu á Airbnb sem, auk þess að greiða ekki gistináttagjald, greiða fasteignagjöld líkt og um íbúðarhúsnæði sé að ræða. Það hlutfall er mun lægra, t.d. 0,18% í Reykjavík þar sem það er næstlægst. „Þessar fasteignaskattshækkanir eru orðnar að hálfgerðri eilífðarvél þar sem skattstofninn skrúfast upp á ári hverju.“