Dansskólinn Dans Brynju Péturs kom svo sannarlega, sá og sigraði Dance World Cup í Braga í Portúgal í síðustu viku. Voru dansarar skólans stigahæstir af íslenska teyminu og unnu til verðlauna í öllum hópaflokkum sem þau tóku þátt í.
Í mars var haldin forkeppni í Borgarleikhúsinu og alls fóru tíu íslenskir dansskólar með 120 keppendur til Portúgal. Ísland hefur ekki tekið þátt í keppninni fyrr en nú, en keppnin er sú stærsta í heimi fyrir ungt fólk á aldrinum 4-25 ára og var haldin í tíunda sinn í ár.
„Allir keppendur okkar komust í gegn úr forkeppninni þannig að við fórum 23 talsins til Portúgal og bara sópuðum að okkur verðlaunum. Þetta var alveg rosalegur árangur,“ segir Brynja Pétursdóttir, eigandi Dans Brynju Péturs.
„Við vorum stigahæst af öllu íslenska teyminu, lönduðum einu gulli, tveimur silfrum og tveimur bronsum sem er alveg frábær árangur. Við vorum í topp þremur í öllum hópaflokkum sem við tókum þátt í. Þetta var alveg tryllt,“ segir Brynja sigurreif.
Dansararnir frá Brynju voru þeir einu frá íslenska teyminu sem lönduðu gulli, einnig var Brynjar Dagur Albertsson stigahæsti íslenski dansarinn. Auk verðlauna Dans Brynju Péturs fengu Íslensku dansskólarnir Danskompaní og Chantelle Carey school of Performing Arts einnig verðlaun.
Brynja segir umfang keppninnar hafa verið mikið og gaman hafi verið að sjá svo stóra keppni.
„Þetta var massíft. Það voru yfir 6.000 keppendur að taka þátt frá 60 löndum þannig að það var varla þverfótað fyrir fólki. Þetta var alveg risakeppni. Mikill metnaður.
„Við vissum ekkert við hverju við áttum að búast. Við bara mættum og gerðum eins og við gerum alltaf og svo byrjuðum við bara að raða inn verðlaunum. Þá snerist þetta í aðeins meiri keppnisferð,“ segir Brynja.
Brynja segir nemendur skólans vera gríðarlega ánægða með árangur sinn í keppninni. Þau hafi notið hverrar mínútu og séu strax farin að huga að næstu keppni.
„Þau eru öll eru alveg í skýjunum. Þetta er í fyrsta sinn sem við erum að fara utan í keppnisferð og við vorum ekki með neinar kröfur eða markmið eða neitt. Við ætluðum bara að fara og gera okkar besta og hafa ógeðslega gaman. Svo kom það bara á daginn að við vorum bara vinnandi medalíur hægri og vinstri.
„Þau eru núna komin á bragðið og geta ekki beðið eftir að fara í næstu keppni,“ segir Brynja og telur líklegt að stefnan sé næst sett á keppnir í Hollandi eða New York í Bandaríkjunum.