Það er háannatími, flestir á leið í frí, sumir í stórum hópum, þar sem öllu ægir saman, foreldrum, stjúpforeldrum, ömmu og afa, stjúpömmu- og afa, bræðrum, stjúpbræðrum, systrum og stjúpsystrum. Allir saman á hóteli og allir glaðir í tvær til þrjár vikur. En þannig er það ekki alltaf. Og stundum kemur fólk heim úr fríum síður úthvílt en áður en farið var út.
Að sögn Valgerðar Halldórsdóttur, fjölskyldu og félagsráðgjafa hjá Stjúptengslum, getur sumarfríið reynt á marga, sérstaklega ef óraunhæfar væntingar og skortur á skipulagi stýra ferðinni. Það hljómar kannski vel að skella öllum saman upp í vél og ætla sér að eiga frábært fjölskyldufrí saman. Það er auðvitað gaman þegar það tekst en í sumum fjölskyldum eru ekki einu sinni allir sammála um hver tilheyrir henni. Í stjúpfjölskyldum er tengsl ólík og sumir þekkjast kannski mjög lítið. Sumarfríið getur verið kvíðavekjandi tími fyrir börn og fullorðna í slíkum fjölskyldum.
„Ólíkt því sem margir halda, þá þarf stjúpfjölskylda að geta skipt sér reglulega upp, bæði eftir stjúptengslum og svo líffræðilegum línum. Þetta er æskilegra en að vera öllum stundum saman. Jafnvel þó börnin séu góð saman þurfa þau sum hver líka hvíld hvert frá öðru. Stundum eru systkini sem eru alltaf saman í reglulegri umgengi orðin hundleið hvort á öðru og þrá ekkert heitara en að fá eitt tíma með foreldri sínu,“ segir Valgerður en það segir hún að sé algengasta umkvörtunarefni barna, að fá engan tíma ein með foreldrum sínum.
Hið sama getur gilt um foreldrana sjálfa. „Þó að það sé erfitt fyrir suma foreldra að orða það við stjúpforeldrið langar marga að vera einir með börnum sínum einhverja daga eða dagsparta í sumarfríi. Parið þarf að ákveða saman hvaða dagar eða dagspartar séu hentugir,“ segir Valgerður.
Þegar stjúpfjölskyldur ætla að fara í frí saman, segir Valgerður að þurfi að viðurkenna þessi ólíku tengsl á milli fólks, leggja rækt við að viðhalda þeim og sömuleiðis að rækta ný. „Því hafi samskiptin verið stirð fyrir og við tökum ekki mið af fyrrgreindum þörfum og skipuleggjum okkur út frá þeim, getum við átt von á reglulegum sprengingum og förum jafnvel að þrá ekkert heitar en að komast sem fyrst heim í vinnuna,“ segir hún.
„Stjúpfjölskyldur sem og aðrar fjölskyldur geta notað tækifærin til að kynnast betur í svona fríum en við þurfum að vera raunsæ. Annars er hætta á að fríið valdi miklum vonbrigðum og streitu,“ segir hún og lýsir því að stundum komi fólk heim úr fríum útkeyrt og vonsvikið.
Valgerður segir að algengt sé að fólk leiti ráðgjafar áður en það fer í frí. Margir séu meðvitaðir um spennuna sem kann að koma upp en eru ekki vissir hvernig á að leysa málin og eiga erfitt með að ræða þau við maka sinn. Stjúptengsl geta valdið ágreiningi í samböndum, sama hve ástfangið fólk er.
„Vanti skipulag og undirbúning getur fólk lent í þeim aðstæðum að það sé að reyna þóknast maka og börnum á sama tíma, sem gengur sjaldnast upp,“ segir Valgerður. Oft sé þó það eina sem þarf bara lágmarksskipulag. „Börn og fullorðnir vilja bara vita hvernig lífið lítur út. Sérstaklega börn sem eiga tvö heimili. Kvíði þeirra er oft túlkaður sem frekja en börnin vita kannski ekkert um hvað næstu dagar bera í skauti sér og þá birtist þessi óvissa í endurteknum spurningum“ segir Valgerður.
Stundum auka fyrrverandi makar á álagið. „Sumir gera kröfu að um daglegt „rapport“ úr fríinu á meðan aðrir láta ekki heyra í sér allan tímann. Einhver samskipti við foreldra heima geta verið gagnleg en börnin verða líka að fá að vera í fríi og aðlagast þar,“ segir Valgerður.