Diamond Beach er víða

Diamond Beach er Fellsfjara
Diamond Beach er Fellsfjara mbl.is/Ómar

Bláhnjúkur er Blue Peak, Brennisteinsalda er Sulfur Wave, Reynisfjara er Black Sand Beach (sem síðan er þýtt til baka í Svörtufjöru af velviljuðum sem vita ekki betur), Brunnhorn er Batman Mountain, Kirkjufell er Arrowhead Mountain, Bláa lónið er Blue Lagoon, Gamla laugin á Flúðum er Secret Lagoon og þegar Raufarhólshelli er flett upp á Google Maps er leitandinn fyrr en varir kominn djúpt í Lava Tunnel.

Eins og frægt er síðan orðið er nú einkum rætt um Diamond Beach á Breiðamerkursandi, sem einhverjum þætti hljóma meira eins og endapunktur í bölsýnislegri vísindaskáldsögu en dæmi úr raunveruleikanum. Það er það þó ekki heldur er íslenskan þar bókstaflega að renna út í sandinn.

Nú skulu rammar skorður við reistar.

Örnefnanefnd sendi bréf til hvers einasta sveitarfélags landsins á dögunum þar sem þess var farið á leit við hvern og einn að hann færi á stúfana eftir grunsamlegum örnefnum í sínu héraði. Enskan er að færa sig upp á skaftið. 

„Við tókum Diamond Beach á Breiðamerkursandi sem dæmi en þetta er að gerast miklu víðar,“ segir Þórunn Sigurðardóttir, fráfarandi formaður nefndarinnar. Þess vegna hefur nefndin farið þess á leit við sveitarfélögin að þau hugi að þessari þróun og bregðist við, áður en það er um seinan. 

Þórunn Sigurðardóttir er fráfarandi formaður Örnefnanefndar. Hún mælir með því …
Þórunn Sigurðardóttir er fráfarandi formaður Örnefnanefndar. Hún mælir með því að sveitarfélög kanni það hjá sér hvort skerpa þurfi á örnefnum í sveitinni, sem kunna vera að afbakast í ensku. mbl.is/Styrmir Kári

Diamond Beach hefur íslenskt nafn. Hún er nefnd Eystri-Fellsfjara austan Jökulsár og Vestri-Fellsfjara vestan ár. Þórunn telur að ef íslensk örnefni ættu sér stoð í kortunum á netinu væru minni líkur á að ónefni sem kann að vera slegið upp á skilti á svæðunum festist í sessi.

Landmælingar inn í Google Maps

Í tilfelli Diamond Beach ætti ekki að vera of seint að grípa inn í, þó að það örnefni sé vissulega það eina sem komi upp á Google Maps þegar svæðið er skoðað. Annars heitir ströndin í kring Breiðamerkursandur. Örnefnanefnd hvatti ekki aðeins sveitarfélög til þess að fara yfir sín mál heldur sendi hún menningar- og menntamálaráðuneytinu einnig erindi um að ráðuneytið kæmi í kring samstarfi við Google um að Google Maps nýti sér gagnagrunn Landmælinga Íslands við kortagerð sína.

Google Maps kallar þetta Diamond Beach en Íslendingar kalla þetta …
Google Maps kallar þetta Diamond Beach en Íslendingar kalla þetta ekki neitt sérstakt, í raun bara Jökulsárlón. Ströndin öll heitir Breiðamerkursandur. Skjáskot/Google Maps

„Það er líka bara öryggisatriði að staðir heiti ekki tveimur nöfnum. Fólk villist mun gjarnar ef það eru tvö landakort í umferð af sama svæði og svo getur það komið upp að sækja þurfi fótbrotið fólk eða hvaðeina. Þá er varhugavert að hafa ekki samræmi,“ segir Þórunn.

Hún er bjartsýn um að þau taki það til sín sem eiga það, sveitarfélögin þar sem ensk örnefni hafa skotið rótum yfir alíslenska staði, sem flestir heita þegar sínum góðu og gildu nöfnum. Og hún er sömuleiðis vongóð um að ráðuneytið komi því í kring að örnefnaskrár Landmælinga verði forritaðar inn í Google Maps við tækifæri, enda öllu nákvæmari en þau gögn sem Google miðar við.

Fréttin hefur verið uppfærð.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka