Á annað hundrað keppenda voru skráðir til leiks í frjálsíþróttum á þriðja og síðasta degi Sumarhátíðar Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) í gær, en sumarhátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1983.
Fjölmennasta keppnisgreinin á laugardag var sund en á föstudag var keppt í örlítið óhefðbundnari greinum, þar á meðal í stígvélakasti. Var sú keppnisgrein hluti af góðgerðarmótinu sem haldið var á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum, en góðgerðarmótið markaði upphaf hátíðarinnar. Safnað var í þágu geðheilbrigðismála á Austurlandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Spurð hvers vegna geðheilbrigðismál hefði verið valin í þetta sinn sagði Gréta Sóley Arngrímsdóttir, hjá UÍA, málefnið hafa þurft á fjárstuðningi að halda, en til stæði að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu fyrir átján ára og eldri.