Hafist verður handa nú í sumar við að leggja ljósleiðara í Bolungarvík og á haustdögum verða fyrstu íbúðarhúsin í bænum tengd honum.
Snerpa ehf. á Ísafirði hóf lagningu stofnleiðar ljósleiðara inn í bæinn fyrir þremur árum og verður í boði 100 MB flutningsgeta til beggja átta, en nú er komið að því að fullnýta möguleikana sem strengurinn skapar. Þar kemur að þætti bæjaryfirvalda, sem leggja talsverða fjármuni til svo tengja megi húsin í bænum. Mun bærinn kosta grunnnetið en íbúar og fyrirtækin borga fyrir tengingar.
„Ljósleiðaravæðing er nauðsyn, skiptir í raun ekki minna máli en gatnakerfi, rafveita, holræsi vatnsveita og fleira slíkt. Í aðstæðum nútímans eru þetta mikilvægir innviðir hvers samfélags,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.