„Þetta er alveg ömurlegt“

Jim Ratcliffe í Selá í sumar.
Jim Ratcliffe í Selá í sumar. Ljósmynd/Einar Falur

Bóndi í Þistilfirði segir kaup fjárfestingafélagsins Sólarsala ehf. á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði, vera afar slæm tíðindi. Segir hann að um mikla óheillarþróun sé að ræða og ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur fyrir kaupin. 

RÚV greindi frá því í dag að Sólarsalir hafi nýverið fest kaup á jörðinni, en félagið er í eigu breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe og hefur undanfarin ár keypt jarðir í Vopnafirði og Þistilfirði. 

„Þetta er bara áframhald á þessari óheillarþróun sem hefur verið. Enn á að herða að. Þetta er óskaplega ömurlegt. Það virðist enginn hafa áhuga á að gera neitt í þessu. Þessu eru engar skorður settar. Síðan gapa ráðamenn hver upp í annan og allir segja að það verði að gera eitthvað en svo gerir enginn neitt. Það virðist vera bara algjörlega frjálst hvernig með þetta er farið,“ segir Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum, en Brúarland 2 er óskipt jörð úr landi Gunnarsstaða.

Bændur komnir í minnihluta

Eftir kaupin eiga félög í eigu Ratcliffe meirihluta veiðiréttar í Hafralónsá, sem er vinsæl laxveiðiá í Þistilfirði. Jóhannes er formaður veiðifélags Hafralónsár og segir hann menn vera uggandi yfir auknum umsvifum erlendra aðila í ánni. Áin hafi verið mikil lífæð fyrir bændur á svæðinu og það sé áhyggjuefni fyrir framtíðarbyggðarþróun að hlunnindatekjur frá laxveiði í ánni fari í sífellt meira mæli út úr sveitarfélaginu. 

„Það er núna orðið þannig að við erum orðnir í minnihluta og þá væri orðið bara langbest að bara afhenda þeim þetta. Þetta er ekkert sem máli skiptir fyrir okkur tekjulega hérna á Gunnarsstöðum, við eigum lítinn hlut í ánni. En þeir sem eiga stóran hlut í ánni eru eftir þetta mjög uggandi yfir sínum hagi. Því við vitum svo það að þessir menn ætla svo bara að leigja sjálfum sér ána. Þetta hefur verið þannig að þeir ráða þessu bara og skammta þá hinum bara því sem þeim sýnist,“ segir Jóhannes. 

Þá segir Jóhannes það vera afar einkennilegt að ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur í Þistilfirði í aðdraganda kaupanna. 

„Við höfðum ekki hugmynd um neitt. Okkur var bara tilkynnt þetta þegar þetta var afstaðið. Þetta kom mér mjög á óvart. Þetta er alveg ömurlegt.“

Gunnarsstaðir í Þistilfirði.
Gunnarsstaðir í Þistilfirði. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka