Icelandair vonast til þess að ekki komi aftur upp atvik svipað og átti sér stað í dag þegar 39 farþegar sem áttu bókað með vél félagsins frá Manchester til Íslands urðu eftir á Bretlandseyjum.
Greint var frá því á Vísi að farþegarnir 39 hafi ekki komist með vegna plássleysis. Flugfélagið hafi ekki náð að gera viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð.
Þar kom enn fremur fram að upphaflega hafi Boeing 757 vél átt að fljúga frá Manchester í dag en vegna kyrrsetningar MAX-véla hafi Icelandair þurft að gera ákveðnar ráðstafanir. Það feli meðal annars í sér að minni vélar eru notaðar.
Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir við mbl.is að allir geri sitt besta til að koma í veg fyrir að svona nokkuð komi fyrir aftur.
Hún segir enn fremur að það hafi í raun gengið ótrúlega vel hjá félaginu í sumar miðað við aðstæður. Unnið sé að því hörðum höndum alla daga að finna lausnir svo kyrrsetningin hafi sem minnst áhrif á farþega.
Farþegunum 39 var boðið upp á gisting og uppihald í Manchester, sem og skaðabætur. Þeim stendur til boða beint flug til Íslands á morgun.