Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti stöðu innleiðingar Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á árlegum ráðherrafundi um heimsmarkmiðin í höfuðstöðvum SÞ í dag.
Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland kynnir landsrýni sína á framkvæmd heimsmarkmiðanna á vettvangi SÞ en landsrýniskýrsla Íslands var gefin út í júní, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Í kynningunni fór forsætisráðherra yfir helstu áskoranir og árangur í innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi, með sérstakri áherslu á loftslagsmálin en aðgerðir ríkja í loftslagsmálum munu hafa áhrif á framgang allra heimsmarkmiðanna. Hún sagði loftslagsbreytingar hafa áhrif á landið okkar, vistkerfi, hagkerfið og samfélagið allt. Brýnt væri að innleiða sjálfbærnihugsun í alla opinbera stefnumótun.
„Til að ná árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þurfum við að leiðrétta ójafnvægi milli kynslóða og það efnahagslega ójafnrétti sem innbyggt er í vandann. Við þurfum á félagslegu réttlæti að halda, við þurfum á friði að halda og við þurfum að ná jafnrétti kynjanna. Stjórnvöld, nærsamfélög, atvinnulífið, félagasamtök, menntakerfið og almenningur þurfa öll að vinna saman. Og við þurfum á alþjóða samvinnu að halda meira en nokkru sinni fyrr,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.