Birgitta Jónsdóttir var tilnefnd til að sitja í trúnaðarráði Pírata en hlaut ekki nægan stuðning á félagsfundi Pírata í gær. 13 greiddu atkvæði með henni eða 19,12% en 55 greiddu atkvæði gegn setu hennar og einn sat hjá.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, greiddi atkvæði gegn setu hennar í trúnaðarráði og útskýrði jafnframt hvers vegna hann teldi að hún ætti ekki að sitja þar á fundinum í gær. Auk hans stigu fleiri í pontu og lýstu sömu skoðun.
„Mig langar ekki að fjalla um annað fólk í fjölmiðlum,“ segir Helgi Hrafn og heldur áfram „það er glatað að tala gegn því að einhver sem maður hefur starfað með lengi sinni ekki einhverri stöðu. Það er ekki gaman fyrir neinn,“ segir Helgi.
Hann segist jafnframt hafa fundið sig knúinn til að greina frá skoðun sinni. „Það þurfti að segja það sem var sagt. Sú umræða var til þess að flokksmenn gætu tekið afstöðu til tilnefningarinnar sem var gert,“ segir hann og vill ekki tilgreina nánar þau orð sem hann lét falla á fundinum.
Hann tekur fram að þeir sem sitja í trúnaðarráði þurfi að njóta almenns trausts innan flokksins og það sé ekki hægt að segja um Birgittu.
Framkvæmdaráð Pírata óskar eftir tilnefningum um þrjá trúnaðarmenn eftir það er haft samband við þá og þeim boðið að gefa kost á sér til setu. Á félagsfundi eru greidd atkvæði með tilnefningunum. Birgitta tilnefndi ekki sjálfa sig til setu heldur tilnefndi annar flokksmaður hana.
Agnes Erna Esterardóttir og Hrannar Jónsson voru bæði samþykkt til setu í ráðinu. Gert er ráð fyrir að þrír sitji í trúnaðarráði en þau þrjú gáfu kost á sér til setu eftir tilnefningu og ljóst að eingöngu tveir af þremur gegna því embætti nú.
Ekki náðist í Birgittu við vinnslu fréttarinnar. Á Facebook-síðu hennar kemur fram að hún ætli ekki að tjá sig við fjölmiðla og vitnar í ljóði eftir Pál J. Árdal. „Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann, þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann, en láttu það svona í veðrinu vaka, þú vitir, að hann hafi unnið til saka.“ Svona hljóðar fyrsta erindi ljóðsins.
Eyjan greindi fyrst frá.