Styrmir vilji fá sakfellingu niðurfellda

Styrmir Þór Bragason var dæmdur í fangelsi af Hæstarétti. Málsmeðferðin …
Styrmir Þór Bragason var dæmdur í fangelsi af Hæstarétti. Málsmeðferðin þar hefur verið dæmd óréttlát af Mannréttindadómstól Evrópu. Sigurgeir Sigurðsson

„Það er ánægja með niðurstöðuna,“ segir Ragnar H. Hall, lögmaður Styrmis Þórs Bragasonar. Kveðinn var upp dómur í Mannréttindadómstól Evrópu í morgun þess efnis að íslenska ríkið hafi brotið á Styrmi og ekki veitt honum réttláta málsmeðferð fyrir dómnum.

„Ég hef aldrei verið sáttur við þessa sakfellingu í Hæstarétti því hún byggðist á röksemdum sem höfðu ekki verið til umfjöllunar í málinu,“ segir Ragnar. Hæstiréttur sneri haustið 2013 dómi héraðsdóms, þar sem Styrmir hafði verið sýknaður, og dæmdi hann í árs fangelsi.

Ragnar Hall er verjandi Styrmis Þórs Gunnarssonar.
Ragnar Hall er verjandi Styrmis Þórs Gunnarssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þar gafst mér ekki, sem verjanda Styrmis, tilefni eða tækifæri til að reifa málið út frá nákvæmlega þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar sakfellingunni þá,“ segir Ragnar. Hæstiréttur hafi ekki kallað eftir vitnaleiðslum eða framburði Styrmis um atriðin sem stuðst var við í sakfellingunni.

Styrmir var dæmdur til eins árs fangelsis í Hæstarétti og afplánaði þann dóm. „Styrmir er búinn að afplána refsidóm ég tel að hann eigi rétt á bótakröfu,“ segir Ragnar, sem hefur ekki náð að ræða við Styrmi, en telur mjög líklegt að hann eigi eftir að leita réttar síns í því efni.

Hliðstætt Vegas-málinu

„Ég geri ráð fyrir að Styrmir vilji fá málið endurupptekið og sakfellinguna niðurfellda,“ segir Ragnar en það mál verður þá sótt fyrir innlendum dómstólum að fenginni þessari niðurstöðu.

Vegas-málinu svonefnda, þar sem aðili var dæmdur saklaus í héraðsdómi, sakfelldur í Hæstarétti, fékk dóm í MDE um að málsmeðferðin hefði ekki verið réttlát þar, fékk málið svo endurupptekið á Íslandi og var að endingu sýknaður í Hæstarétti. Enn á eftir að koma í ljós hvort Styrmir hlýtur sömu meðferð.

„Það hefur gerst nokkuð oft undanfarið að íslenska ríkið er að fá áfellisdóma í mannréttindadómstólnum vegna MSE. Mér hefur löngum fundist að menn hafa verið tregir til að fylgja ákvæðum hans bæði dómstólar og ákæruvaldið en það er vonandi að menn skoði það í framhaldinu af þessu,“ segir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert