Tafist hefur í um þrjár til fjórar vikur að vegmerkja vegarkafla á Sæbraut í Reykjavík eftir malbikunarframkvæmdir þar í júní.
Ábendingar hafa borist Vegagerðinni vegna þessa, en hönnun vegna breytinga á staðsetningu vegmerkinganna tafði upphaflega fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni frá því í gær stóð til að hefja í verkið í síðustu viku. Votviðri mun hafa staðið í vegi fyrir því og beðið er eftir þurrki. Þar að auki þarf að vinna verkið að næturlagi. Í sumar hefur verið lokið við malbikun á Sæbraut nærri Katrínartúni, Frakkastíg og Snorrabraut, en enn er þar lokuð akrein sem verið er að breyta. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er Sæbraut aðeins brot af því sem merkja þarf í sumar og eru önnur vegmerkingarverkefni um allt land á undan áætlun að sögn, þökk sé góðviðri í upphafi sumars.
Í bílablaði Morgunblaðsins er fjallað um vegmerkingar hér á landi. Ólafur Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur áætlar að á helmingi gatnamóta á Íslandi sé merkingum ábótavant.