ALC leggur Isavia og fær þotuna

Þota WOW air sem deilt hefur verið um.
Þota WOW air sem deilt hefur verið um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í morgun að ALC, eigandi Airbus A321 þotu sem WOW air hafði á leigu fyrir gjaldþrot félagsins og hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli síðustu mánuði, þyrfti aðeins að greiða þá upphæð sem væri tengd vélinni en ekki allar skuldir annarra flugvéla á vegum WOW air við Isavia. ALC hafði þegar greitt um 87 milljónir sem voru skuldir beintengdar við vélina sem var kyrrsett og geta því strax undirbúið flutning vélarinnar frá vellinum. Isavia hafði farið fram á að ALC myndi greiða um tvo milljarða vegna skulda WOW air.

Undirbúningur fyrir flutning þegar hafinn

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, staðfestir niðurstöðu héraðsdóms í samtali við mbl.is og segir að forsvarsmönnum ALC erlendis hafi þegar verið gerð grein fyrir niðurstöðunni og að undirbúningur fyrir flutning vélarinnar sé þegar hafinn.

Í úrskurði héraðsdóms er að sögn Odds fallist á kröfu ALC um að aðeins sé hægt að kyrrsetja vélina vegna kostnaðar sem kom til vegna hennar. ALC fékk sundurliðaða reikninga afhenda og hafði greitt 87 milljónir sem félagið taldi hafa fallið til vegna gjalda af vélinni í Keflavík. Isavia hefur hins vegar mótmælt því og sagt að gjöldin séu hærri, en að ómögulegt sé að finna út hvað kostnaður einnar vélar sé nákvæmlega, þar sem mikið sé um sameiginlegan kostnað fyrir allar vélar ákveðins flugfélags. Oddur segir að í úrskurðinum sé sönnunarbyrðin fyrir kostnaðinum lögð á Isavia og þar sem ekkert hafi komið sem sýni fram á aðra upphæð en 87 milljónirnar standi það.

Það mun taka einhvern tíma að koma vélinni í flughæft ástand, en hún hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í þrjá og hálfan mánuð. Oddur segir að sterkar öryggiskröfur séu í gangi og því þurfi að skoða vélina áður en hún sé flutt í burtu. „Félagið úti hefur þegar gripið til ráðstafana til að tryggja hagsmuni sína,“ segir hann.

Hættir að vera minnismerki um fall WOW

Oddur segist virkilega sáttur við úrskurðinn og að þessi niðurstaða hafi fengist í málið. „Þetta er í samræmi við það sem við byggðum á og líka í fyrra málinu sem fór bæði fyrir Landsrétt og Hæstarétt. Það er miður hvað það hefur tafist að fá þessa niðurstöðu, en þær tafir eru á reikning Isavia,“ segir Oddur og bætir við að þá hafi Landsréttur að mati Hæstaréttar einnig farið út fyrir meginreglur réttarfars í fyrri úrskurði sínum og það hafi tafið málið.

„En það þýðir ekki að gráta orðinn hlut, við erum glöð yfir að þessi niðurstaða sé komin,“ segir Oddur, en hann telur gott að vélin hætti að verða minnismerki um fall WOW air á Keflavíkurflugvelli.

Telja tjónið nema á annað hundrað milljónum

Isavia getur kært niðurstöðu héraðsdóms, en Oddur segir að slík kæra fresti þó ekki réttaráhrifum og því geti ALC tekið vélina af vellinum.

Spurður út í framhaldið og hvort ALC muni fara fram á bætur segir Oddur það liggja fyrir. Nú verði farið rækilega yfir tjón ALC vegna kyrrsetningarinnar og hvort Isavia beri þar ábyrgð. Muni ALC innheimta þá skaðabótakröfu og fara fyrir dómstóla ef þarf. Segir Oddur að miðað við það sem lögmenn ALC hafi tekið saman telji þeir tjónið þessa þrjá og hálfan mánuð vera komið á annað hundrað milljónir. „Það tjón er meira en það sem WOW skuldaði Isavia vegna þessarar þotu,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert