„Ég vil Birgittu ekkert illt“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, beitti sér gegn því að …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, beitti sér gegn því að Birgitta Jónsdóttir tæki sæti í trúnaðarráði flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég stend við hvert orð sem ég sagði í þess­ari ræðu. En það var ekk­ert ætl­un mín að þetta færi í fjöl­miðla. Ég vissi auðvitað af því fyr­ir­fram að það gæti gerst og var al­ger­lega reiðubú­inn und­ir það. En fyr­ir mér er þetta inn­an­flokksmál og þó það sé auðvitað fjöl­miðla að ákveða hvað eigi er­indi við al­menn­ing þá var svo ekki frá mín­um bæj­ar­dyr­um séð.“

Þetta seg­ir Helgi Hrafn Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, í sam­tali við mbl.is vegna fé­lags­fund­ar hjá Pír­öt­um í gær þar sem kosið var til trúnaðarráðs flokks­ins. Birgitta Jóns­dótt­ir, fyrr­ver­andi þingmaður Pírata, sótt­ist eft­ir sæti í ráðinu en hlaut ekki kosn­ingu. Fyr­ir kosn­ing­una hélt Helgi Hrafn ræðu þar sem hann fór hörðum orðum um reynslu sína af sam­starfi við Birgittu og lagðist gegn kosn­ingu henn­ar. Birgitta tók einnig til máls á fund­in­um og sagðist hafa upp­lifað ræðu Helga sem „ákveðið mann­orðsmorð“, en upp­taka frá fund­in­um fór á netið í kjöl­far fund­ar­ins og hafa fjöl­miðlar fjallað um hana.

Gæti verið frá­bær í öðrum störf­um

Meðal þess sem Helgi Hrafn sagði í ræðu sinni var að Birgitta skapaði ósætti í stað þess að skapa sátt, væri al­ger­lega ófeim­in við það og stærði sig af því. Hún krefðist þess að aðrir leituðu álits hjá henni en leitaði ekki álits hjá öðrum og græfi und­an sam­herj­um sín­um ef hún teldi sér standa ógn af þeim. Þá hótaði hún fólki ef hún fengi ekki það sem hún vildi. Sagðist Helgi hafa haft tvo kosti; segja frá reynslu sinni, vit­andi að það gæti ratað í fjöl­miðla, eða þegja í þeim efn­um. Það síðar­nefnda vildi hann hins veg­ar ekki gera.

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Birgitta Jóns­dótt­ir, fyrr­ver­andi þingmaður Pírata. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Mér þótti ekki mik­il­vægt að segja þetta við neinn nema þá sem eru í flokkn­um og tóku þátt í ákvörðun um það hvort Birgitta ætti að vera í þess­ari trúnaðar­stöðu. Það var eng­in ástæða fyr­ir mig til að halda þessa ræðu fyr­ir neina aðra. Ég vil Birgittu ekk­ert illt, ég bara vil ekki að hún sé í trúnaðar­stöðu fyr­ir flokk­inn af þeim ástæðum sem ég nefndi í ræðunni minni. Hins veg­ar get­ur vel verið að hún sé al­veg frá­bær í öðrum störf­um. En ég myndi ekki vilja hafa hana í trúnaðar­störf­um fyr­ir Pírata,“ seg­ir hann enn­frem­ur.

Helgi Hrafn seg­ist þó ekki gera neina at­huga­semd við að upp­taka af fund­in­um hafi verið sett á netið þótt hann hafi sjálf­ur ekki talið efni hans eiga er­indi við aðra en flokks­menn. Hins veg­ar hafi hann gert sér fulla grein fyr­ir því all­an tím­ann að ein­hver kynni að taka ræðu hans upp og dreifa henni enda fund­ur­inn öll­um op­inn og all­ir vel­komn­ir. Ræðuna hafi hann engu að síður flutt meðvitaður um það. Það hafi hins veg­ar ekki verið mark­mið hans og held­ur ekki hans verk. En hann standi við hvert orð ræðunn­ar.

Hegðun í trúnaðar­störf­um skipt­ir máli

„Ég ætla ekki að þegja yfir minni reynslu þegar ein­hver, sem ég hef unnið mikið með, sæk­ist eft­ir trúnaðar­stöðu. Fólk verður bara að vita það að hegðun þess í trúnaðar­störf­um þegar það vinn­ur með mér skipt­ir máli ef það sæk­ist eft­ir trúnaðar­störf­um aft­ur. Ef fólk treyst­ir sér ekki til þess þá get­ur það bara sleppt því. Þetta er bara sann­gjarnt, svona virk­ar lýðræðið. Ef fólk býður sig fram þá býður það því heim að fólk sem hef­ur reynslu af störf­um manns lýsi þeim og það er það sem ég gerði og stend við hvert orð.“

Birgitta hafi gefið það út í kjöl­far fund­ar­ins að hún ætli ekki að svara fjöl­miðlum og þess í stað ein­beita sér að hugðarefn­um sín­um. „Mig lang­ar að virða það. Mig lang­ar að hún geti bara haldið áfram með líf sitt. Þessi upp­taka fór ekki á kreik vegna þess að ég vildi það. Ég vil hins veg­ar að hún hafi sem flest tæki­færi til þess að nýta krafta sína ann­ars staðar. Mig lang­ar ekk­ert að fjalla meira um það op­in­ber­lega. Nú er hún bara orðin óbreytt­ur borg­ari og mér finnst að hún eigi rétt á því frelsi sem því á að fylgja.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert