„Þegar hús eru smíðuð taka smiðir sér oft fyrir hendur að reka saman vinnuborð til að nota við smíðina. Þau eru gjarnan úr mótatimbri og jafnan traust því að mörg og þung hamarshögg munu dynja á því borði. Vinnuborðin þurfa ekki aðeins að þola hamarshögg heldur og sögun, fleygun og málningu. Það táknar frelsi smiðsins til athafna. Þegar smíði hófst við Lindakirkju árið 2007 var eitt fyrsta verk smiðanna hjá Ístaki að koma sér upp vinnuborði. Það var notað lengst af við smíð kirkjunnar. Örlög slíkra vinnuborða eru oftast þau að gripið er til kúbeinsins og þau rifin.“
Þannig hefst frásögn á vef þjóðkirkjunnar um altarið í kapellu Lindakirkju í Kópavogi sem er frábrugðið ölturum í öllum öðrum guðshúsum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Altarið er semsé gamalt vinnuborð sem smiðir kirkjunnar komu sér upp fyrir meira en áratug. Í stað þess að vera rifið í lok framkvæmdanna og enda á spýtnahaug beið þess göfugt hlutverk við helgihald í kirkjunni.
Séra Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindasókn, segir að kirkjugestir hafi tekið þessu vel og altarið veki óskipta athygli. Hann segir að eftir að hugmyndin kviknaði hafi menn í fyrstu verið ögn hikandi. „En eftir dálitlar vangaveltur sáu þeir hvað þetta var snjöll hugmynd og fögur,“ segir hann. Í raun megi segja að smíði kirkjunnar hafi hafist á borði þessu sem nú er orðið altari, hinn helgasti staður hverrar kirkju og kapellu, þar sem smiðurinn mikli býður til borðhalds sem byggir menn upp til sálar og líkama.
Sjá samtal við Guðmund Karl í heild á b aksíðu Morgunblaðsins í dag.