„Við lofum því að þetta verður sérstök hreyfing og óhefðbundin að mörgu leyti,“ segir Elísabet Kristín Jökulsdóttir skáld.
„Við tölum frekar um hreyfingu en flokk, en þetta á að vera verndarvættur náttúru Íslands,“ segir Hrafn Jökulsson rithöfundur, bróðir Elísabetar, í samtali við mbl.is.
Hann ræðir þó stofnun „almennilegs umhverfisflokks“ og segir „orustuna um Ísland rétt að byrja“. Þau ætla að halda fund bráðlega þar sem nýr flokkur verður stofnaður.
„Hvort sem við stofnum stjórnmálaflokk eða öfluga umhverfishreyfingu verður að koma í ljós,“ segir Elísabet í samtali við mbl.is.
„Við verðum samt að fá fólk á þing sem þorir eitthvað. Það eru jarðir á útsölu á Norðausturlandi. Það á að virkja ekki bara á einum stað á Ófeigsfjarðarheiði heldur tveimur til viðbótar. Og það hlýtur að vera alveg svakaleg spilling hér fyrst ekkert er gert,“ segir Elísabet. Danir og Grænlendingar gerðu eitthvað, bendir hún á.
„Umhverfismál eru munaðarlaus í núverandi flokkakerfi en eru samt brýnasta viðfangsefni okkar tíma. Við munum setja þau vel og rækilega á dagskrá, burtséð frá hefðbundnum viðhorfum til vinstri og hægri,“ segir Hrafn.
Þau hafa hvort um sig gagnrýnt harðlega fyrirhugaðar virkjanir í Strandasýslu, þar sem þau eiga rætur. Hrafn hefur búið þar og skrifað bækur um staðinn.
„Af hverju hefur enginn þingmaður farið norður á Strandir? Ekki einu sinni í stjórnarandstöðunni. Af hverju fara þeir ekki norður og hitta fólk og láta sjá sig? Fólk hefur áhyggjur af þessu,“ segir Elísabet.
Þau gera það bæði skýrt í samtali við blaðamann að stefnan sé ekki sú að stofna eiginlegan stjórnmálaflokk, sem býður fram til þings. En þau útiloka það hvorugt. Og það verður að koma í ljós á umræddum fundi, sem haldinn verður í Tjarnarbíó öðru hvoru megin við verslunarmannahelgina.
„Ég hélt nú ekki að ég ætti eftir að fara að skipta mér af pólitík á gamals aldri. En það er bara ekkert í stöðunni,“ segir Hrafn en ítrekar að þau systkinin verði „bara fótgönguliðar“ í þessari nýju hreyfingu, þau komi henni á laggirnar en feli svo öðrum að leiða hana. Illugi Jökulsson verður með og Kolbrá Höskuldsdóttir og Unnur Þóra Jökulsdóttir, öll þau börn Jóhönnu Kristjónsdóttur heitinnar.
Hrafn segir fjölmarga þegar hafa haft samband. „Þetta brennur á öllu skynsömu og upplýstu fólk, ekki aðeins það sem er að gerast norður í Strandasýslu núna, heldur öll þau hefndarvirki gagnvart íslenskri náttúru sem fara fram um þessar mundir,“ segir hann.
„Ég vona að við þurfum ekki að stofna heilan stjórnmálaflokk og efla til framboðs. Ég vona heitt frá mínu hjarta að íslenskir stjórnmálaflokkar vakni upp til vitundar en ef það gerist ekki þá látum við að sjálfsögðu til skarar skríða,“ segir hann að lokum.