Landsréttur staðfesti í gær að Vigfús Ólafsson, karlmaður á sextugsaldri sem Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í fimm ára fangelsi fyrir stórfellda brennu og manndráp af gáleysi, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til frestur til að áfrýja málinu rennur út.
Tvær manneskjur létust í brunanum og var Vigfúsi gert að greiða aðstandendum hinna látnu á þriðja tug milljóna í miskabætur vegna málsins, auk þess sem hann ber allan sakarkostnað í málinu.
Sama dag og dómur var kveðinn upp, 9. júlí, lagði fulltrúi ákæruvaldsins fram kröfu um áðurnefnda framlengingu gæsluvarðhalds. Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfuna en þó ekki lengur en til 17. september.
Verjandi Vigfúsar kærði úrskurðinn til Landsréttar, sem hefur nú staðfest hann.
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, sagði í málflutningi sínum í júnímánuði að hæfileg refsing Vigfúsar vegna málsins væri allt að átján ára fangelsi, en dómur Héraðsdóms Suðurlands hljóðar upp á fimm ár, eins og áður segir.