„Það er engin hætta fyrir lönd eins og okkar. Þetta breytir í raun engu af því sem við höfum verið að gera,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir um ákvörðun Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) að lýsa ebólufaraldrinum sem hefur geisað í Austur-Kongó sem bráðri ógn við lýðheilsuna sem varðar þjóðir heims.
Nú er unnið að því innan embættisins að „dusta rykið af“ viðbragðsáætlun og leiðbeiningum um ebólu sem voru búnar til á árunum 2014 og 2015 fyrir Ísland.
Þórólfur segir yfirlýsingu WHO til þess gerða að gripið verði til harðari og markvissari aðgerða bæði í Kongó og eins í nálægum löndum. „Henni er líka ætlað að vekja til umhugsunar um að lönd hugi að sínum viðbúnaði,“ segir Þórólfur.
Tilkynningin var send út eftir að ebólusmit barst til milljónaborgarinnar Goma á landamærum Austur-Kongó við Rúanda sem er talið auka mjög hættu á að sjúkdómurinn breiðist út bæði innan Austur-Kongó en einnig milli landa.