Engin svör fást frá forráðamönnum Isavia vegna forræðisdeilu ríkisfyrirtækisins og bandaríska fyrirtækisins ALC fyrr en á morgun. Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Hann fundar með forstjóra og öðrum yfirmönnum á morgun og munu þeir í kjölfarið svara ósvöruðum fyrirspurnum fjölmiðla.
Ekki hefur náðst í Sveinbjörn Indriðason, forstjóra Isavia, í dag eða gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanna mbl.is. Hann mun vera á ferðalagi á landsbyggðinni en ekki fást upplýsingar um það í hvaða erindagjörðum það er, og hvort hann sé að vinna að málinu stóra, þar sem hagsmunir ríkisins hljóða upp á um tvo milljarða króna, eða í fríi.
ALC er eigandi vélar sem var í leigu Wow Air, en eftir gjaldþrot þess kyrrsetti Isavia, sem kunnugt er, vélina og meinaði eigendum að fljúga henni á brott nema það greiddi allar skuldir Wow Air vegna lendingargjalda þeirrar vélar og annarra, ALC óviðkomandi.
Flugvirkjar ALC, eiganda flugvélarinnar sem hefur verið í haldi Isavia í á fjórða mánuð, eru farnir að vinna við að gera vélina flughæfa. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að fyrirtækið hafi frá upphafi haft aðgang að vélinni til að ræsa hana og ganga úr skugga um að allt væri í lagi með hana, þótt þeim hafi ekki verið heimilt að fljúga á brott fyrr en nú.
Á fundi lögmanna ALC og Isavia með sýslumanni í morgun, þar sem aðfarargerðin var staðfest, bókuðu lögmenn Isavia mótmæli sín. Vildu þeir að réttaráhrifum yrði frestað þar til Landsréttur hefði kveðið upp úrskurð sinn.
Landsréttur kvað í maí upp úrskurð Isavia í vil, en ALC áfrýjaði til Hæstaréttar, sem sendi málið aftur í hérað. Héraðsdómur kvað síðan, sem kunnugt er, upp úrskurð í gær þar sem kyrrsetningin var úrskurðuð ólögleg og skyldi ALC fá aftur fullt forræði yfir vél sinni.
Í samtali við mbl.is í morgun sagði Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, að stefnt væri að því að fljúga henni úr landi á morgun eða hinn.