„Gamli Herjólfur sinnir þessu alveg“

Viðlegukantar í höfninni í Vestmannaeyjum henta ekki nýjum Herjólfi.
Viðlegukantar í höfninni í Vestmannaeyjum henta ekki nýjum Herjólfi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við gerðum ráðstafanir í Landeyjahöfn en töldum að þetta yrði í góðu lagi í Vestmannaeyjum. Síðan kom í ljós að það er öruggara að bæta þá aðstöðu,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, um helstu orsök tafa á áætlunarsiglingum nýja Herjólfs: viðlegukantinum í Vestmannaeyjahöfn.

Til stóð að nýr Herjólfur hæfi áætlunarsiglingar í dag, 18. júlí, en ekki varð úr því og er ljóst að frekari töf verður á vegna lagfæringa sem ráðast þarf í á viðlegukanti (e. fender) í höfninni í Vestmannaeyjum.

G. Pétur segist aðspurður ekki þora að fara með það hversu langan tíma þær framkvæmdir muni taka. „Við erum að skoða þetta. Það tekur einhvern tíma.“

„Það er þannig séð ekki neinn gríðarlegur þrýstingur að hefja siglingar með nýju ferjunni af því gamli Herjólfur sinnir þessu alveg. Þeir afkastá álíka miklu. Það er betra að gera þetta þannig að það sé allt í góðu lagi,“ segir G. Pétur, en hætta er á skemmdum á skipi eða bryggju sé viðlegukantur ekki í lagi.

G. Pétur segir afköst gamla Herjólfs svipuð og þess nýja.
G. Pétur segir afköst gamla Herjólfs svipuð og þess nýja. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., sagði í samtali við mbl.is í dag að lagfæringu á ekju- og landgöngubrúm, þannig að þær gangi upp fyrir bæði skip án teljandi vandræða, væri næstum lokið. Nú stæði á Vegagerðinni að lagfæra viðlegukanta og að vonast væri til þess að nýr Herjólfur yrði kominn í gagnið fyrir verslunarmannahelgi. Um hvort það náist vill G. Pétur lítið segja.

Ekki endilega sniðugt að sigla nýjum Herjólfi á Þjóðhátíð

„Það er best að segja sem minnst um tímasetningar. Við erum að finna út úr því hvað þetta tekur langan tíma. Þetta eru sjö ferðir á dag sem Herjólfur fer og áhöfnin er þjálfuð á þann gamla og gerir allt hratt og örugglega. Það tekur einhvern tíma fyrir hana að komast í rútínu á nýja Herjólfi svo það er ekki víst að það sé sniðugt að vera með nýtt skip þegar er svona mikið að gera eins og verður [um Verslunarmannahelgina]. Þá reynir á að menn séu snöggir,“ segir G. Pétur, en Herjólfur fer yfirleitt um ellefu ferðir á sólarhring yfir Þjóðhátíð.

Við viljum vera öruggir á að það sé engin hætta á að eitthvað skemmist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert