Þingflokkur Pírata var sammála um að rétt væri að upplýsa fundarmenn á félagsfundi flokksins á þriðjudaginn á hreinskilinn hátt um reynsluna af samstarfi þingmanna hans við Birgittu Jónsdóttur áður en greidd væru atkvæði um það hvort hún tæki sæti í trúnaðarráði flokksins. Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var á meðal þeirra sem fluttu ræðu á félagsfundinum. Fór hann hörðum orðum um reynslu sína af samstarfi við Birgittu sem er fyrrverandi þingmaður flokksins og einn stofnenda hans. Sagði hann hana meðal annars skapa ósætti fremur en sátt, grafa undan samherjum sem hún teldi ógna stöðu sinni og hóta þeim. Björn Leví segist aðspurður sjálfur hafa hliðstæða reynslu af Birgittu.
„Helgi Hrafn er náttúrulega með lengri reynslu af þessu en ég. En ég heyrði ekkert ósatt af því sem hann sagði,“ segir Björn Leví. Þingflokkurinn hafi rætt málið fyrir fundinn og talið rétt að upplýsa fundarmenn um málið áður en gengið yrði til atkvæða til þess að þeir gætu vitað að hverju þeir gengju ef niðurstaðan yrði sú að Birgitta tæki sæti í trúnaðarráðinu.
„Helgi lýsti þessu nákvæmast enda með einna mesta reynslu af þessu,“ segir Björn enn fremur. Hins vegar væri rétt að taka það inn í myndina að Birgitta meini alltaf vel. En þótt fólk væri í stríði við pólitíska andstæðinga þyrfti ekki líka að vera í stríði við samherja. „Hún er náttúrulega baráttukona með hnefann á lofti til þess að ná sínum góðu málefnum í gegn og ekkert nema gott um það að segja. En á meðan hnefinn á lofti er hennar mesti styrkur þá er hann líka hennar mesti galli.“
Spurður um viðbrögð við þeim sjónarmiðum að Helgi Hrafn hafi tekið of sterkt til orða og gengið of langt segist Björn hafa mikinn skilning á þeirri afstöðu. Hins vegar hafi verið reynt að segja ekki meira en þörf hafi verið á til þess að upplýsa fólk um það sem gerst hefði. Það hafi að minnsta kosti verið markmiðið.
„Þetta hefði getað verið nákvæmara en við hreinlega vitum ekki hvernig hefði verið hægt að ganga styttra. Við reyndum og reyndum en fundum bara ekki leið til þess að geta sagt frá þessari reynslu okkar á neinn annan hátt.“