Sögulegur viðburður verður á morgun, föstudaginn 19. júlí. Þá kemur til Reykjavíkur í fyrsta sinn farþegaskipið Queen Mary 2.
Skipið er væntanlegt að Skarfabakka í Sundahöfn klukkan 8. Það lætur úr höfn klukkan 14 á laugardag.
Drottningin er mikið glæsiskip, sem gert er út af breska skipafélaginu Cunard. Skipið er 345 metrar að lengd og lengsta farþegaskip sem hingað hefur komið. Til samanburðar má nefna að keppnisvöllur í fótbolta er rúmlega 100 metrar að lengd. Farþegar eru 2.620 og í áhöfn eru 1.254 manns, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Það var Elísabet Englandsdrottning sem gaf Quuen Mary 2 nafn 8. janúar 2014 og 14. sama mánaðar lagði drottningin af stað í jómfrúarsiglinguna frá Southamton til Fort Lauderdale. Skipið er 149.215 brúttótonn og var á sínum tíma stærsta farþegaskip heims. Síðan þá hafa verið sjósett fjölmörg stærri skip, enda hafa siglingar með skemmtiferðaskipum náð mikilli hylli meðal almennings. sisi@mbl.is