Arnar Þór Ingólfsson
Stefnt er að því að Airbus A321-þota bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins Air Lease Corporation fljúgi af stað frá Keflavíkurflugvelli klukkan 9 í fyrramálið. Samkvæmt heimildum mbl.is og Morgunblaðsins er gert ráð fyrir þessu í flugáætlun.
Flugvirkjar ALC hafa unnið að því að gera þotuna flughæfa, en hún hefur staðið kyrr á Keflavíkurflugvelli frá því í mars. Á meðan hafa ALC og Isavia staðið í stappi um vélina, sem Isavia hefur haldið á vellinum sem tryggingu fyrir um tveggja milljarða heildarskuldum WOW air við ríkisfyrirtækið.
Í gær úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness að ALC hefði einungis þurft að greiða þá upphæð sem tengdist þessari tilteknu flugvél, TF-GPA, en ekki allar skuldir WOW air vegna gjalda á Keflavíkurflugvelli.
Héraðsdómur féllst auk þess ekki á kröfu Isavia um að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað þar til Landsréttur hefði tekið málið fyrir.
Samkvæmt svari frá upplýsingafulltrúa Isavia við fyrirspurnum mbl.is í dag er ekki von á neinum viðbrögðum frá Isavia vegna málsins fyrr en eftir innanhússfund þar á bæ á morgun. Þá verður vélin, samkvæmt flugáætlun, farin af landi brott.