„Þetta er mjög skrýtið og leiðinlegt að þetta gerist aftur og aftur. Þetta er því miður orðið árlegt núna,“ segir Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, um grindhvali sem rak á land í Löngufjörur. Myndir af dauðum hvölum náðust í þyrluflugi hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Reykjavík Helicopter upp úr hádegi í dag.
Algengt er að grindhvali reki á land, einkum á þessum árstíma, á utanverðu Snæfellsnesi nálægt Rifi og Ólafsvík. Í nokkrum slíkum tilfellum hefur björgunarsveit og almenningur náð að bægja þeim frá, að sögn Róberts. „Þetta gerist ekki nálægt mannabyggðum og því hefur líklega enginn orðið var við þetta,“ segir hann.
„Ég er að frétta af þessu núna. Ég er að meta hvort við kíkjum á þetta,“ segir Róbert spurður hvort fulltrúi frá Náttúrustofu skoði dýrin. Hann bendir á að þeim beri ekki skylda til að kanna þetta en þau hafa alltaf náð að fylgjast með slíkum atburðum.
„Það er ansi mikið að gera hjá okkur í öðrum verkefnum. Við erum fáliðuð og erum á fullu í vöktun arnarstofnsins, í fuglarannsóknum og ýmsu. Af myndunum að dæma sýnist mér þeir allir dauðir. Það er svo sem lítið hægt að gera. Ef þeir væru lifandi værum við farin af stað,“ segir hann.