Dr. Gunni hesthúsar pylsu í foreftirrétt

Strákarnir eru í sumarfríi og létu sig ekki vanta á …
Strákarnir eru í sumarfríi og létu sig ekki vanta á Götubitahátíðina á Miðbakka í dag, þó þeir hafi vissulega ratað þangað af tilviljun. mbl.is/​Hari

„Við vorum í sundi og þurftum að fá okkur eitthvað að éta,“ segir Dr. Gunni, sem er á myndinni nýsestur með pylsu í góðum félagsskap vinar síns Péturs Magnússonar. Þeir eru í sumarfríi og sáu sér þann kost vænstan í hádeginu í dag að nærast, eða byrja að nærast, á nýopnuðum matarmarkaði við Miðbakkann í Reykjavíkurhöfn.

Pylsan var þó ekki látin duga, síður en svo. Áður en blaðamaður blandaði sér í málið höfðu félagarnir þegar fengið sér tvö lítil taco á mann. Þau dugðu alls ekki. 

Pétur: „Þetta var ekki upp í nös á ketti.“

Pétur áfram, eftir andartaks umhugsun: „Þetta var ekki upp í rassgatið á flugu.“

Hneisa, sammæltust félagarnir um, og úr varð að Gunni fékk sér umrædda pylsu. „Sem var ekki einu sinni nógu heit!“ sagði hann. Á meðan lét Pétur taco-in nægja, innan þeirra marka sem það rúmaðist.

Að étnum tveimur taco-um og einni pylsu hefði maður ætlað að doktorinn væri mettur. „Nei, nú er það Vesturbæjarís. Ég verð að bæta upp fyrir taco-in!“ sagði hann og iðaði af tilhlökkun að keyra vestur í bæ og halda áfram bíltúrnum. Þannig var pylsan foreftirréttur, því það var ís í eiginlegan eftirrétt.

Félagarnir voru hvað sem ofangreindri atburðarás líður á einu máli um að matarmarkaðurinn nýi væri hin besta viðbót við miðbæinn. „Þetta er frábær tilraun. Og það er mikið hugrekki að fara af stað með svona. Þetta hrynur ef það er ekki gott veður,“ sagði Pétur. En auðvitað verður gott veður.

Mannlíf á Miðbakka

Matarmarkaðurinn opnaði í dag og fleiri góðir gestir mættu á staðinn. Hann verður opinn yfir helgina og margvísleg dagskrá fer fram, svo sem keppni um besta götubitann. Hún er haldin á morgun. Hver getur fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari Götubitahátíð. 

Susan og Rose eru svissneskar og hafa verið í 10 …
Susan og Rose eru svissneskar og hafa verið í 10 daga á landinu. Þær kváðust meðvitaðar um að fiskur og franskar sem tvíeyki væru ekki séríslenskt fyrirbrigði en sögðu ekki skemma fyrir að njóta slíks með góðum íslenskum fiski. mbl.is/​Hari

„Við kunnum mjög vel við Ísland,“ sögðu svissnesku systurnar Susan og Rose, sem gæddu sér á Fish and Chips. Pétur hafði orð á því að sá staður væri sá besti á markaðnum. Ætli hann hafi ekki öfundað þær. Þær kunnu alltént mjög vel við sá götubitahátíðinni og sögðu að matarmarkaðir í borgum væru af hinu góða. Þó að þær þekki ekki Reykjavík án matarmarkaðs á Miðbakka, eru þær vissar um að hann sé góð viðbót. 

Hamborgarar, pylsur, pizzur, matur almennt, götubiti.
Hamborgarar, pylsur, pizzur, matur almennt, götubiti. mbl.is/​Hari
Úr nógu að velja.
Úr nógu að velja. mbl.is/​Hari
mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert