Maðurinn sem er grunaður um að stinga annan mann í heimahúsi í Neskaupstað um miðnætti 10. júlí síðastliðinn situr í gæsluvarðhaldi til 8. ágúst. Landsréttur staðfesti fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Austurlands. Maðurinn kærði úrskurðinn til Landsréttar.
Meintur gerandi veitti enga mótspyrnu við handtökuna en hann hafði flúið af vettvangi og var handtekinn skammt frá. Maðurinn sem var stunginn bankaði upp á hjá nágranna sínum alblóðugur og óskaði eftir hjálp. Nágranninn hringdi á lögregluna.
Maðurinn var með stungusár víðs vegar um líkamann, skerta vitund og mikla blæðingu. Þrátt fyrir það gat hann skýrt lögreglu frá því í sjúkrabifreið hver gerandinn var. Hann gat einnig sagt frá því að gerandinn væri ástfanginn af kærustu hans. „Hann hefði margoft hótað að stinga hana, drepa hana og skera hana á háls. Hann hefði svo birst á heimili brotaþola.“
Nágranninn lýsir því hvernig maðurinn sem var stunginn hafi bankað hjá sér og hrunið inn um útidyrahurðina þegar hann opnaði. Hann hafi stuggað við brotaþola út fyrir hurðina af ótta við að árásarmaðurinn myndi ryðjast inn til hans þar sem fjölskylda hans var sofandi.
Eftir að nágranninn hringdi á lögregluna hafi hann séð árásarmanninn úti með hnífa í báðum höndum í leit að brotaþola. Árásarmaðurinn „hafi bankað lauslega á rúðuna með hnífunum og horft á vitnið í gegnum rúðuna. Þá hafi brotaþoli legið í felum aftan við bifreið sem stóð á bílaplaninu fyrir utan, mikið slasaður.“
Eftir það hafi árásarmaðurinn gengið á brott, sleppt hnífunum við bílaplanið og gengið burt. Skömmu seinna hafi lögregla komið.
Árásarmaðurinn ber við minnisleysi um atburðinn í skýrslutöku lögreglu. Hann segist muna eftir sér reykja við heimili sitt. Síðan brestur minni hans þar til hann rankar við sér á gangi, alblóðugur á höndum með hníf í báðum.
Maðurinn sem var stunginn er á batavegi. Hann var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík og gekkst undir nokkrar aðgerðir.