Taka þarf nýja Herjólf í slipp vegna galla sem reyndist vera í öðrum jafnvægisugganum. Þetta staðfestir G. Pétur Mattíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is en ferjan kom til landsins um miðjan síðasta mánuð.
Herjólfur fer í slipp á Akureyri í haust en gallinn þýðir að sögn G. Péturs að sjór fer inn í olíu. Spurður um alvarleika gallans í ljósi þess að gert sé ráð fyrir að ferjan fari í slipp í haust segir hann að betra sé að gera það strax. Þetta þýði að skipta þurfi oftar um olíu.
Spurður hvort ekki þurfi að ræða þennan galla við skipasmíðastöðina í Póllandi sem smíðaði Herjólf segir G. Pétur að það verði gert. Það sé þá annaðhvort skipasmíðastöðvarinnar að bæta það eða þeirra sem útveguðu búnaðinn.
Fréttavefurinn Eyjar.net greindi fyrst frá.