Það þyrfti þyrlu til að koma vísindamönnum á þann stað í Löngufjörum þar sem tugi grindhvala rak á land og því horfir ekki vel með sýnatöku. Þetta segir Gísli Arnór Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
„Við spáðum í að fara á staðinn en þegar við komumst að því að þetta væri svo óaðgengilegt að það þyrfti helst þyrlu og jafnvel þá væri staðurinn bara aðgengilegur á háfjörunni virtist þetta vera illgerlegt fyrir okkur,“ segir Gísli í samtali við mbl.is. Hafrannsóknastofnun hafi hvorki aðgang að þyrlu né fjármuni til að leigja slíkt. Starfsmenn stofnunarinnar hafa þó ekki útilokað að komast á staðinn og eru enn að kanna hvort það sé mögulegt.
„Landeigandi segir þetta ekki aðgengilegt nema í þyrlu og þá jafnvel bara stuttan tíma í senn,“ bætir Gísli við, en hann hafði hugsað sér að fara á staðinn. „Það væri hugsanlega hægt að fara þetta á hesti, en það er ekki neitt sem við höfum yfir að ráða.“
„Ákveðið verkferli er sett í gang þegar það verður hvalreki og fá þá fjórar stofnanir tilkynningar — Umhverfisstofnun, Hafrarannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og svo viðkomandi heilbrigðiseftirlit. „Það er búið að láta alla vita af þessu,“ segir Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Gísli segir Hafrannsóknastofnun hafa látið stofnanirnar vita að sérfræðingar hennar vildu gjarnan fá fréttir af því ætluðu hinar stofnanirnar að senda einhvern á staðinn. Hann telur þó ólíklegt að það gerist og hefur því áhuga á að fá einnig af því fréttir ætli einhverjir ótengdir stofnunum á staðinn.
Gunnar segir jörðina þar sem hvalina rak á land vera í einkaeigu og það er því á ábyrgð landeiganda að grípa til aðgerða vegna grindhvalanna, telji hann þess vera þörf.
Aðstæður hljóma þó þannig að erfitt væri að fjarlægja dýrin og urða og segir Gísli ekki endilega þörf á því þar sem staðurinn sé afskekktur. „Þetta er auðvitað bara náttúrulegt fyrirbæri sem hefur gerst með reglulegu millibili. Þessi tegund er fræg fyrir þetta og að því leyti er þetta náttúrulegt fyrirbrigði þó að auðvitað sé þetta afbrigðilegt. Búsvæði grindhvala er í djúphafinu og þess vegna lenda þeir í vandræðum þegar þeir fara upp á grynningar.“
Spurður hvort ekki sé slæmt fyrir vistkerfi staðarins að tugur dýra sé þar að rotna á sama tíma, segir Gísli náttúruna ganga tiltölulega fljótt frá hræjunum. „Mun stærri hvalir hverfa fljótt,“ segir hann og kveðst ekki telja umhverfisvá stafa af þessu. „Dýr drepast í náttúrunni og rotna, en þetta eru vissulega mörg dýr á litlum stað.“
Fjölda hvalanna sem drapst nú segir Gísli enda líklega vera þann mesta frá því árið 1986, þegar 148 hvalir gengu á land í nágrenni Þorlákshafnar og drápust. „Þá var þetta alveg ofan í þorpinu og í slíkum aðstæðum var allt annað dæmi, þá veldur lyktin ama og þess vegna þurfti að fjarlægja þá.“